Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríkin innleiða refsiagðerðir gegn Kúbverjum

23.07.2021 - 02:33
epaselect epa09357347 A person holds a banner asking for US 'Military Intervention' in Cuba, next to hundreds of Cuban-Americans during a demonstration to show support for protesters in Cuba, in front of the Versailles restaurant in Miami, Florida, USA, 21 July 2021. Thousands of Cubans took to the streets in Cuba on 11 July to protests the lack of freedom and human rights, the economy, as well as shortages of commodities on the island.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
Brottfluttum Kúbverjum í Flórída þykja refsiaðgerðir duga skammt og krefjast innrásar Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn tilkynnti í gærkvöld að varnarmálaráðherra Kúbu og sérsveit innanríkisráðuneytisins verði útilokuð frá því að eiga viðskipti við bandarískar fjármálastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Allar eignir viðkomandi í Bandaríkjunum, ef einhverjar eru, verða frystar. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir þetta „bara byrjunina" á refsiaðgerðum gegn stjórnvöldum á Kúbu vegna mannréttindabrota þeirra á friðsömum mótmælendum en stjórnvöld í Havana fordæma aðgerðirnar.

Nokkur þúsund manns söfnuðust saman í hinum ýmsu borgum Kúbu fyrr í þessum mánuði til að krefjast frelsis undan einræði og mótmæla viðvarandi skorti á mat, lyfjum, rafmagni og öðrum nauðsynjum. Á annað hundrað manns úr þessum hópi hafa verið handtekin síðan.

„Þetta er bara byrjunin, segir í yfirlýsingu Bidens, „Við fordæmum fjöldahandtökurnar og málamyndaréttarhöldin á Kúbu og munum halda áfram að beita þá refsingum sem bera ábyrgð á kúgun kúbversku þjóðarinnar.“

Ærumeiðandi refsiaðgerðir

Yfirvöld á Kúbu brugðust við hart  um leið og tilkynnt var um refsiaðgerðirnar og sögðu að með þeim væri ómaklega vegið að orðspori og heiðri landsins. Í yfirlýsingu Brunos Rodriguez utanríkisráðherra á Twitter segist hann „hafna tilefnislausum og ærumeiðandi refsiaðgerðum bandarísku ríkisstjórnarinnar“ gagnvart varnarmálaráðherranum Lopez Miera og sérsveitinni. Sagði hann að Bandaríkjamenn ættu frekar að líta sér nær og beita sér gegn landlægri kúgun og lögregluofbeldi í eigin ranni.