Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Auglýsa eftir fólki í bakvarðasveitir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti hvetja til þess á vef sínum að fólk skrái sig á lista bakvarðasveita. Hjá félagsmálaráðuneyti er sérstaklega óskað eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa og börn með sértækar stuðningsþarfir og er óskað eftir fólki með reynslu og menntun í heilbrigðis- og félagsþjónustu.

„Velferðarþjónustan sinnir þjónustu við viðkvæma hópa og mikilvægt að hún falli ekki niður þrátt fyrir það ástand sem nú ríkir,“ segir á vef ráðuneytisins, þar sem áhugasamir geta skráð sig. 

Bakverðir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í COVID-faraldrinum og komið til starfa þar sem mannekla hefur verið vegna einangrunar eða sóttkvíar fastra starfsmanna. Smit hafa aukist mikið síðustu daga. Ríkisstjórnin kemur saman klukkan 16:00 í dag og ræðir tillögur í nýjasta minnisblaði Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. 76 smit voru greind innanlands í gær. 

Ákveðið hefur verið að endurvekja bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar í ljósi fjölgunar smita. Á vef heilbrigðisráðuneytis er óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki sem er reiðubúið að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara, hvort sem er í fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu. Þau sem voru skráð í bakvarðasveitina og sjá sér enn fært að veita liðsinni eru beðin um að skrá sig á ný. 

Fréttin hefur verið uppfærð.