Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áríðandi að mæta snemma og þekkja reglur á áfangastað

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli hvetur farþega til að mæta snemma og kynna sér vel COVID-reglur á áfangastað. Áríðandi sé að afla tilskilinna gagna áður en lagt er í ferðalag.

Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við morgunútvarp Rásar tvö, að tvisvar yfir daginn komi tvo til þrjú þúsund manns á innan við tveimur tímum inn í flugstöðina. 

„Þessa farþega þurfum vil alla að hitta og athuga hvort þeir séu „fit to fly“ inn í landið.“ 

Arngrímur segir mikið álag á allt starfsfólk í flugstöðinni og hvetur brottfararfarþega að morgni til að mæta klukkan fimm, það dragi úr stressinu. 

„Það sem er að gerast hérna að meiripartur farþega er að koma um sex leytið. Það er svona þessi hefðbundni tími til að mæta í flugstöðina en ég hvet fólk til að mæta svona klukkutíma fyrr.“

Hann segir áríðandi að þekkja COVID-reglur í þeim löndum sem fólk hyggst ferðast til. Arngrímur bendir á að þær reglur geti verið síbreytilegar.

„ Það gerist ansi oft hérna að fólk mætir á morgnana í flugstöðina og er ekki búið að afla sér tilskilinna pappíra, PCR-prófa eða hraðprófa. Þar af leiðandi fá þeir ekki að fara með. Það sem gerir innrituna flókna að mörgu leyti eru þessar mismunandi reglur milli landa.“

Arngrímur segir það sama eiga við um komufarþega. „Það koma allir á sama tíma og þá óhjákvæmilega myndast miklar raðir.“