Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

22 fallnir í blóðugum fangauppreisnum í Ekvador

epa09357540 Soldiers arrive to guard the Latacunga prison after a riot has occurred in Latacunga, Ecuador, 22 July 2021. At least 18 dead inmates and several wounded police officers left riots in two prisons in Ecuador, according to the National Service for Comprehensive Attention to Persons Deprived of Liberty (SNAI), which is in charge of prison control. The incidents were registered in Prison 1 in the coastal province of Guayas, near the port city of Guayaquil and in the Andean city of Cotopaxi, near the city of Latacunga, the SNAI specified in its Twitter account.  EPA-EFE/Jose Jacome
Herinn hefur tekið við öryggisgæslu við múra og innganga fangelsa í Ekvador, þar á meðal við Latacunga-fangelsið í Cotopaxi þar sem fjórtán fangar hafa týnt lífinu í óeirðum síðustu daga. Mynd: EPA-EFE - EFE
Ríkisstjórn Ekvadors lýsti í gær yfir neyðarástandi í fangelsum landsins vegna blóðugra fangauppreisna í tveimur öryggisfangelsum, þar sem 22 liggja í valnum og hátt í 60 eru særðir eftir tveggja daga átök. Guillermo Lasso, forseti Ekvadors, gaf út tilskipun um að beita skuli hverjum þeim ráðum, fjármunum og mannafla sem þörf er á til að koma aftur á röð og reglu í fangelsum landsins.

Forsetinn sagði að herinn fengi það hlutverk að tryggja ytri múra fangelsanna og innganga, en lögreglan tæki við öryggisgæslunni innan veggja þeirra; hlutverki sem borgaralegir fangaverðir hafa séð um til þessa. Áður en gripið var til þessara ráðstafana höfðu fangelsismálayfirvöld stöðvað alla starfsemi innan fangelsismúranna sem mögulega gætu „stefnt föngum og starfsfólki fangelsanna í hættu."

Byssur, sprengiefni, mannfall og fangar á flótta

Óeirðirnar brutust út á miðvikudag í tveimur af stærstu fangelsum landsins. Annað þeirra er í Guayas í suðvesturhluta landsins. Þar létust átta fangar á miðvikudag og þrír lögreglumenn særðust. Hitt fangelsið er Latacunga-fangelsið í Cotopaxi, fjallahéraði um miðbik landsins. Þar hafa fjórtán fangar týnt lífinu og fimm lögreglumenn særðust, auk þess sem tugir fanga lágu sárir eftir óeirðirnar.

Héraðsstjóri Cotopaxi, Oswaldo Coronel, segir að fangarnir hafi beitt öflugum skotvopnum og sprengiefnum í óeirðunum og mikið tjón verið unnið á fangelsunum tveimur.

Þá tókst fjölmörgum föngum að strjúka úr Latacunga-fangelsinu í rauðabítið á fimmtudag. Lögregla og fangelsisyfirvöld hafa ekki upplýst hversu margir náðu að flýja en sögðust hafa handsamað 78 þeirra nú þegar.

Fangelsi í Ekvador eru yfirfull og óeirðir og uppreisnir þar nánast daglegt brauð. 79 féllu í blóðugum fangauppreisnum í fjórum ekvadorskum fangelsum í febrúar síðastliðnum, þar á meðal þessum tveimur, þegar glæpagengi tókust á um yfirráðin innan veggja þeirra.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV