Friðargæsluliðar frá Bangladess í Mið-Afríkulýðveldinu. Mynd: EPA - ANSA

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
13 almennir borgarar myrtir í Miðafríkulýðveldinu
23.07.2021 - 02:38
Þrettán almennir borgarar féllu í árás óþekktra vígamanna á þorp norður af Bangui, höfuðborg Miðafríkulýðveldisins í vikunni. Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna í landinu greindi frá þessu í gær. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni Friðargæslunnar að liðsmenn hennar hafi fundið 13 lík í Bongboto, um 300 kílómetra norður af Bangui, á miðvikudag.
Ekki er vitað um tildrög illvirkisins eða hverjir voru að verki en í yfirlýsingu Friðargæslunnar segir að allt kapp verði lagt á að komast að hinu sanna og draga ódæðismennina fyrir rétt.
Næst-vanþróaðasta ríki heims
Afar róstusamt hefur verið í Miðafríkulýðveldinu um margra ára skeið. Landið er næst-vanþróaðasta ríki heims samkvæmt skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna og glímir enn við eftirköst blóðugs borgararstríðs sem þar braust út 2013.
Núverandi ríkisstjórn kennir hreyfingu stjórnarandstæðinga um morðin í Bongboto. Sú hreyfing kallar sig Samfylkingu föðurlandsvina um breytingar og var stofnuð í desember á síðasta ári með það fyrir augum að koma forsetanum Faustin Archange Touadera frá völdum.