Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vonbrigði hjá Val og FH gegn norsku liðunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Vonbrigði hjá Val og FH gegn norsku liðunum

22.07.2021 - 20:53
Valur og FH léku bæði heimaleiki í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Valsmenn fengu Noregsmeistara Bodö/Glimt í heimsókn og annað norskt lið, Rosenborg, mætti í Kaplakrika.

Um var að ræða fyrri leiki liðanna en FH vann Sligo Rovers í fyrstu umferð á meðan Valsmenn mættu beint í 2. umferð Sambandsdeildarinnar eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Dinamo Zagreb í forkeppni Meistaradeildarinnar. Rosenborg koma beint inn í 2. umferð, sem og Bodö/Glimt en liðið datt úr forkeppni Meistaradeildarinnar eftir töp gegn Legía frá Póllandi.

Á Hlíðarenda var landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted í byrjunarliði Bodö/Glimt og leikurinn var afar fjörugur framan af. Á 40. mínútu tókst Bodö/Glimt að komast í gegnum Valsvörnina og Ulrik Saltnes kom norska liðinu yfir. Staðan var 1-0 í hálfleik og eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik fengu Valsmenn dæmt á sig víti þegar Hannes Þór Halldórsson felldi Saltnes inni í teig. Patrick Berg fór á punktinn og skoraði af öryggi, 2-0. Fimm mínútum síðar var Berg svo aftur á ferðinni með þriðja mark Bodö/Glimt. Lokatölur 3-0 og Valsmenn þurfa á kraftaverki að halda í seinni leik liðanna ætli þeir að komast áfram. 

Í Kaplakrika mættust FH og Rosenborg þar sem landsliðsmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson var í byrjunarliðinu. Lítið gerðist í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum 0-0. Varnarleikur FH hélt vel allt þar til á 61. mínútu þegar Carlo Holse kom boltanum í netið. Tíu mínútum síðar var það svo Dino Islamovic sem tvöfaldaði forystu Rosenborg. FH fengu dauðafæri á 79. mínútu en André Hansen varði vel í marki þeirra norsku. 2-0 því niðurstaðan og erfiður útileikur því sömuleiðis fram undan hjá FH í næstu viku. 

Breiðblik spilaði sömuleiðis leik í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar fyrr í dag. Liðið mætti austurríska liðinu Austria Wien í Vín en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Blikar í ágætri stöðu eftir jafntefli í Austurríki