Um 80 í einangrun í farsóttarhúsum

22.07.2021 - 08:26
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Gestum farsóttarhúsa Rauða krossins heldur áfram að fjölga í takt við fjölgun smita. Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður farsóttarhúsa segist gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram næstu daga segir starfsfólk sitt vera farið að lýjast.

„Það hefur töluvert bæst við af fólki hjá okkur. Við vorum að taka á móti gestum til klukkan tvö í nótt. Núna eru rétt um 80 einstaklingar í einangrun hjá okkur og 170 manns í skimunarsóttkví,“ sagði Gylfi.

Hann segir að allur gangur sé á því hvernig gestir taki því að þurfa að dvelja á farsóttarhúsi. Nokkur hluti gesta séu erlendir ferðamenn sem voru á leið úr landi og þurfi því að aðstoða þau við að koma sínum málum á hreint.

„Svo eru það Íslendingarnir hjá okkur. Þeir gerðu líklega ráð fyrir að eyða sumrinu með einhverjum öðrum hætti,“ sagði Gylfi.

Enn er nóg pláss fyrir gesti í farsóttarhúsum og segir Gylfi að gert sé ráð fyrir fjölgun gesta næstu daga. Hann viðurkennir þó að starfsfólk sé farið að lýjast:

„Við þurfum hugsanlega að bætta eitthvað við, sérstaklega með þennan fjölda í huga sem er að koma. Við erum nokkuð viss um það að það verði áfram fjölgun í dag og næstu daga,“ sagði Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður farsóttarhúsa.

Andri Magnús Eysteinsson