Skoraði þrennu á innan við hálftíma - Sjáðu mörkin

Mynd: EPA-EFE / EPA

Skoraði þrennu á innan við hálftíma - Sjáðu mörkin

22.07.2021 - 11:07
Stórkostlegur fyrri hálfleikur Brasilíumanna dugði til sigurs gegn Þýskalandi þegar keppni í knattspyrnu karla hófst á Ólympíuleikunum í Tókýó. Richarlison var í miklum ham í liði Brasilíu.

Brasilía og Þýskaland eru í riðli með Fílabeinsströndinni og Sádí Arabíu en þau mættust í morgun og lauk leiknum með 2-1 sigri Fílabeinsstrandarinnar.

Leiksins á Yokohama vellinum í Japan var beðið með mikilli eftirvæntingu af hálfu beggja þjóða og knattspyrnuáhugamanna víðs vegar um heim. Yokohama völlurinn er sami völlur og hýsti úrslitaleik HM árið 2002 þegar einmitt sömu þjóðir mættust, þá skoraði Ronaldo bæði mörkin í 2-0 sigri Brasilíumanna.

Leikurinn var ekki nema 7. mínútna gamall þegar Everton maðurinn Richarlison var búinn að skora eftir að hafa fylgt eftir sínu eigin skoti. Á 22. mínútu var hann svo aftur á ferðinni þegar hann stangaði boltann í netið af stuttu færi, hann fullkomnaði svo þrennuna á fyrsta hálftíma leiksins þegar hann boltanum fram hjá Florian Muller í þriðja skiptið á 23 mínútum. Brasilíumenn fengu svo víti sem Muller varði frá Cunha.

Í seinni hálfleik var sama staða upp á teningnum og Brasilíumenn betri, en lukkudísirnar voru með Nadiem Amiri í liði þegar hann sneiddi boltann fram hjá Santos í marki Brasilíumanna á 57. mínútu, fimm mínútum síðar hafði svo Maximilian Arnold látið reka sig út af með tvö gul spjöld. Manni færri tókst Ragnari Ache að skalla boltann í netið og minnka muninn í 3-2 en það var svo varamaðurinn Paulinho sem átti draumaskot í fjærhornið og kláraði leikinn 4-2 í uppbótartíma.