Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segist skynja vaxandi spennustig í Ólympíuþorpinu

Mynd: RÚV / RÚV

Segist skynja vaxandi spennustig í Ólympíuþorpinu

22.07.2021 - 17:30
Ásgeir Sigurgeirsson, skotmaður, verður fyrstur af íslensku keppendunum til að stíga á svið á Ólympíuleikunum í Tókýó. Keppni í hans grein, 10 metra loftskammbyssu, fer fram á laugardag og hann segist skynja vaxandi spennustig í Ólympíuþorpinu.

Setningarathöfn Ólympíuleikanna fer fram á morgun, föstudag, klukkan 11 að íslenskum tíma. Sundfólkið Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir verða fánaberar Íslands á leikunum en þetta er í fyrsta skipti sem fánaberar þátttökuþjóða er tveir, ein kona og einn karl. 

Ásgeir hefur keppni daginn eftir setningarathöfnina, á laugardag. Vafi lék á því hvort að hann gæti tekið þátt í athöfninni en hann segist ótrauður ætla að ganga inn með íslenska hópnum. „Hún [setningarathöfnin] byrjar það snemma að ég verð komin nógu snemma heim í þorpið. Svo keppi ég ekki fyrr en eitt að staðartíma í minni grein þannig að það var alveg nægur tími til þess að ná góðum svefni fyrir mótið,“ segir Ásgeir. 

Hann segir Ólympíuþorpið vera að lifna við, enda streymir nú þangað íþróttafólk hvaðanæva af úr heiminum til þess að taka þátt á leikunum. Ásgeir segir enn fremur að vel fari um íslensku keppendurna, maturinn sé góður, herbergin vel loftkæld og þeim líði vel. „Þetta er bara mjög gott og gaman.“

Þegar keppni líkur hjá keppendum hefst niðurtalning þar sem þau þurfa að koma sér frá Tókýó og til síns heima á innan við tveimur sólarhringum. Það hentar Ásgeiri vel að þessu sinni en eiginkona hans er ólétt hér heima. „Ég bara bíð spenntur eftir því að komast heim þegar mótið er búið,“ segir Ásgeir að lokum. 

Viðtalið við Ásgeir í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Ásgeir keppir í 10 metra loftskammbyssu á laugardagsmorgun klukkan 6:20, sýnt verður beint frá keppninni á RÚV.