Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Reyk frá skógareldum leggur þvert yfir Bandaríkin

22.07.2021 - 04:17
A thick haze hangs over Manhattan, Tuesday, July 20, 2021, in New York. Wildfires in the American West, including one burning in Oregon that's currently the largest in the U.S., are creating hazy skies as far away as New York as the massive infernos spew smoke and ash into the air in columns up to six miles high. (AP Photo/Julie Jacobson)
Manhattan í móðu hárfínna sótagna sem borist hafa ríflega 3.000 kílómetra leið Mynd: AP
Loftgæði voru í gær óvíða minni í stórborgum heimsins en í New York, þar sem reykur frá skógareldunum sem brenna í vesturríkjum Bandaríkjanna byrgði fólki sýn og knúði heilbrigðisyfirvöld til að gefa út viðvörun vegna hættulegrar loftmengunar.

Um 80 stórir skógar- og gróðureldar loga vestast í Bandaríkjunum um þessar mundir og svartur reykjarmökkurinn liggur þar yfir öllu. En svo mikill er reykurinn að hann leggur líka yfir borgir og bæi á austurströndinni, í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá eldunum.

Meiri mengun mældist í New York í gær en í mörgum af menguðustu stórborgum heims og heilbrigðisyfirvöld ráðlögðu borgarbúum sem viðkvæmir eru fyrir loftmengun að halda sig heima, loka gluggum og forðast óþarfa áreynslu. Svifryk mældist 157 míkrógrömm í rúmmetra lofts á Manhattan, en hættumörk eru við 100 míkrógrömm.

Þetta er annað árið í röð sem reykur frá skógar- og gróðureldum á vesturströnd Bandaríkjanna berst ríflega 3.000 kílómetra leið til austurstrandarinnar í svo miklu magni að heilsu fólks þar stafar hætta af.