Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Milljarðar í fyrstu neyðaraðstoð á flóðasvæðunum

22.07.2021 - 01:48
epa09353804 A damaged bridge at the Ahr River, in Altenahr, Germany, 19 July 2021. Large parts of western Germany and central Europe were hit by flash floods in the night of 14 to 15 July, following days of continuous rain that destroyed buildings and swept away cars. The total number of victims in the flood disaster in western Germany rises to at least 164, with many hundreds still missing.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkisstjórn Þýskalands og stjórnvöld í sambandsríkjunum sextán samþykktu í gær áætlun um neyðaraðstoð til þeirra sem verst urðu úti í hamfaraflóðunum í vesturhluta landsins í síðustu viku. Reiknað er með að uppbygging húsa, fyrirtækja, samgöngumannvirkja og annarra innviða muni kosta ótalda milljarða evra áður en yfir lýkur.

Í gær var samþykkt að veita um 400 milljónum evra, jafnvirði tæplega 60 milljarða króna, í neyðaraðstoð til allra brýnustu verkefna nú þegar. Skiptist sá kostnaður til helminga á milli ríkissjóðs og sambandsríkjanna sextán. Fjármálaráðherrann Olaf Scholz greindi frá þessu á fréttamannafundi í Berlín og sagði þetta fyrsta skrefið af mörgum sem taka þurfi til að tryggja að „lífið geti haldi áfram“ á flóðasvæðunum. 

Ráðherrann sagði unnið að milljarða áætlun um hreinsunarstörf og uppbyggingu innviða á hamfarasvæðunum og lofaði líka milljörðum evra til endurreisnar íbúðarhúsa, fyrirtækja og verksmiðja. Ríkisstjórn Angelu Merkel hafði áður lýst því yfir að sótt yrði um neyðaraðstoð til samstöðusjóðs Evrópusambandsins vegna náttúruhamfara. 

Fyrr í gær kom fram að tryggingafélög í Þýskalandi þurfa að líkindum að greiða allt að fimm milljarða evra, jafnvirði nær 750 milljarða króna,  vegna flóðanna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jörg Asmussen, formaður GDV, Samtaka þýskra tryggingafélaga, sendi frá sér. Tjónið er þó miklum mun meira, þar sem innan við helmingur fólks á hamfarasvæðunum er tryggt gegn tjóni af völdum vatnsveðurs og flóða. 

Flóðin eru mannskæðustu náttúruhamfarir í Þýskalandi í manna minnum. Þar fórust minnst 174 og á annað hundrað manns er enn saknað. Í nágrannalandinu Belgíu varð einnig feiknarmikið tjón vegna flóða og þar létust ekki færri en 32 í hamförunum.