Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mannskæðar fangauppreisnir í Ekvador

epa09034694 Soldiers guard the Zonal 8 Deprivation of Liberty Center, one of the four Ecuadorian prisons where riots took place a day earlier, in Guayaquil, Ecuador, 24 February 2021. The number of deaths rose to 79 in a chain of violent clashes in multiple prisons in Ecuador, attributed by the authorities to a dispute between gangs for control of prisons, while not ruling out drug trafficking.  EPA-EFE/Marcos Pin
Þungvopnaður hermaður á verði við eitt af nokkrum fangelsum í Ekvador þar sem blóðugir bardagar brutust út milli stríðandi glæpagengja í febrúar 2021. Þau átök mörkuðu upphaf þeirrar vargaldar sem enn ríkir í ekvadorskum fangelsum. Mynd: epa
Átta týndu lífinu og rúmlega 20 særðust í blóðugum fangauppreisnum í tveimur fangelsum í Ekvador í gær. Hinir látnu voru allir fangar en tveir hinna særðu eru úr röðum lögreglunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu yfirvalda. Þeir sem létust voru allir í fangelsi í Guayas-héraði í suðvestanverðu landinu, og þar særðust jafnframt lögreglumennirnir tveir. Um tuttugu fangar særðust svo í óeirðum í fangelsi í Cotopaxi-héraði í Andesfjöllunum.

Fangelsi í Ekvador eru yfirfull og óeirðir og uppreisnir þar nánast daglegt brauð. 79 féllu í blóðugum fangauppreisnum í fjórum ekvadorskum fangelsum í febrúar síðastliðnum, þar á meðal þessum tveimur, þegar glæpagengi tókust á um yfirráðin innan veggja þeirra.

Í frétt AFP segir að í Ekvador séu rekin um það bil 60 fangelsi sem hönnuð eru fyrir um 29.000 fanga. Þar eru hins vegar um 38.000 manns í haldi. Um 1.500 fangaverðir sjá um gæsluna, en fullyrt er að þeir þyrftu að vera um 4.000 talsins ef vel ætti að vera. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV