Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Innbrotum og eignaspjöllum fer fjölgandi á milli mánaða

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust alls 59 tilkynningar um innbrot á heimili í júní en það er mesti fjöldi innbrotstilkynninga á einum mánuði frá desember 2018. Þetta kemur fram í mánaðaskýrslu höfuðborgarsvæðisins fyrir júní. Þar segir að flestar innbrotstilkynningar hafi komið frá miðborginni, Vesturbæ, Seltjarnanesi, Háaleiti, Hlíðum og Laugardal. Heildarfjöldi innbrota frá upphafi árs er þó svipaður og síðustu tvö ár.

Ofbeldisbrotum fór þó fækkandi á milli mánaða en í þeim flokki bárust 116 tilkynningar í júní. Fjölda ofbeldisbrota, það sem af er ári, svipar þó til tölfræði síðastliðinna þriggja ára. Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur þó fjölgað um 18% í ár ef miðað er við síðastliðin þrjú ár en í júní fækkaði þeim þónokkuð frá því í maí. 

Þá hefur orðið töluverð fjölgun á tilkynningum um eignarspjöll á höfuðborgarsbæðinu en áður. Tilkynnt var um 177 tilkynningar í þeim flokki en þær hafa ekki verið fleiri í tæp 11 ár, eða frá árinu 2010.