Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Huga þarf vel að dýrum í hitanum

22.07.2021 - 21:26
Mynd: RUV / Ólafur Gros
Hitinn á stórum hluta landsins síðustu vikur hefur ekki síður áhrif á dýr en menn. Dýralæknir á Akureyri hefur fengið til sín gæludýr sem hafa veikst í hitanum og hundar hafa brennt sig á heitu malbiki. Hestaeigandi fyrir norðan segir að passa verði að brynna vel.

Við vitum vel hvað það er mikilvægt að finna sér skjól fyrir sólinni í steikjandi hita og að drekka vel af vatni. Og þetta á ekki bara við um mannskepnuna.

Hestar þurfa skjól frá sólinni, ferskt vatn og nóg af salti

Í Breiðholtinu á Akureyri er Andrea Margrét Þorvaldsdóttir að huga að hrossum í hesthúsinu. Langflest hross eru þó úti á þessum tíma ársins og í brennandi sól síðustu vikur. „Þeim líður ekkert svo illa í svona hita ef þau komast í skjól frá sólinni. Ef þau komast í smá skugga þá líður þeim alls ekkert illa,“ segir hún. „Þau þurfa fyrst og fremst að hafa aðgang að fersku vatni, alls ekki stöðnuðu vatni, og nóg salt. Af því að þegar hross svitna þá tapa þau svo miklum söltum.“ Hún segir að einn líkamshluti sé viðkvæmastur fyrir sól. Mjög algengt sé að hross sólbrenni í kringum nasir og munn ef þau eru hvít þar og með ljósa húð. Þá geti hross sem eru ljós í kringum augun líka brunnið þar. 

Verkefnum hjá dýralækninum fjölgar í hitanum

En varúðarráðstafanir eiga auðvitað við um öll húsdýr. Elfa Ágústsdóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum Lögmannshlíð, bendir til dæmis á að ekki sé gott fyrir kýr að vera úti í svona mikilli sól og hita. Þær geti sólbrunnið á júgrunum og hvítar kýr geti brunnið á skrokknum. Og verkefnum hjá Elfu hefur fjölgað í hitanum og fólk komið til þess að láta líta á dýrin sín. „Já það ber dálítið á því, sérstaklega gæludýr, “ segir hún. „Það er rosalegur gróður og mikið ryk þannig að hundar eru mikið að koma út af ofnæmi.“

Hundarnir brenna á þófunum á sjóðheitu malbiki

Þá hafi fólk komið með hunda sem hafi brunnið á þófunum á heitu malbiki. „Það þarf að passa það rosalega vel að malbik getur hitnað og þeir eru að hlaupa greyin og þá getur flest af húðin á þófunum. Þannig að það hafa nokkrir komið svoleiðis,“ segir Elfa. Og báðar eru sammála um að dýrin væru alveg tilbúin í smá norðanátt og rigningu, þó mannskepnan vilji frekar sól. Og það megi ekki gleyma því að dýrin eru háð okkur mannfólkinu við að komast úr hitanum í eitthvað kaldara.