Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fangaverðirnir lausir og fangarnir bak við lás og slá

22.07.2021 - 00:24
epa09356762 Police officers during a large police operation at Hallby Prison outside Eskilstuna, Sweden, 21 July 2021, after two inmates have taken staffmembers hostage.  EPA-EFE/PER KARLSSON SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Báðir fangaverðirnir sem teknir voru í gíslingu í öryggisfangelsinu í Hällby í Eskilstuna í Svíþjóð eru lausir úr haldi og heilir á húfi. Fangarnir tveir sem tóku þá í gíslingu, dæmdir morðingjar báðir tveir, eru aftur komnir bak við lás og slá og verða að líkindum ákærðir fyrir mannrán.

Kenneth Holm, yfirmaður öryggismála hjá sænsku fangelsismálastofnuninni, segir líðan fangavarðanna eftir atvikum góða. Annar þeirra var látinn laus um kvöldmatarleytið eftir að mannræningjarnir fengu þeirri kröfu sinni framgengt að tuttugu fangar í þeirra álmu fengju kebab-pítsu.

Hinn var látinn laus nokkru síðar, um klukkan hálf tíu í kvöld að staðartíma, um níu klukkustundum eftir að hann var tekinn í gíslingu. Ekki hefur verið greint frá því hvernig það bar til að öðru leyti en því, að ekki reyndist nauðsynlegt að beita valdi.

Mannræningjarnir, sem voru vopnaðir rakvélablöðum lokuðu sig inni í einni af varðstofum fangelsisins ásamt gíslum sínum, karli og konu sem bæði eru við sumarafleysingar í fangelsinu. Þeir lokuðu varðstofunni kirfilega og byrgðu fyrir allar öryggismyndavélar.

Meðal þess sem þeir kröfðust fyrir lausn gíslanna var þyrla fyrir sig að flýja í, en ljóst er að ekki var orðið við þeirri kröfu. Þeir eru nú í gæsluvarðhaldi á lögreglustöðinni í Eskilstuna og verða ekki vistaðir í Hällby-fangelsinu í framhaldinu.

Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins segir að Hällby fangelsið sé hið rammgerðasta í Svíþjóð. Þar er pláss fyrir 98 fanga sem hlotið hafa dóma fyrir hættuleg glæpaverk.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV