Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ef þetta væri inflúensufaraldur væru viðbrögðin eins“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Landspítalinn sinnir nú hátt í 300 COVID-sjúklingum sem langflestir eru bólusettir. Enn sem komið er eru einkenni meginþorra þeirra væg. Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID- göngudeildarinnar telur brýnt að grípa til aðgerða til að hefta útbreiðslu. Ekki sé hægt að taka mið af fjölda fólks með alvarleg einkenni því staðan geti breyst hratt. Hann segir ekki hægt að líkja sýkingunni við inflúensu og telur það samfélagslega skyldu að vernda fólk í áhættuhópi.

Telur óhjákvæmilegt að bregðast við

„Þetta er bara ástand sem er viðsjárvert, það hefur komið á daginn að bólusetningin virkar ekki nægilega til að verja fólk gegn smiti, sérstaklega af völdum þessa Delta-afbrigðis veirunnar og við erum að sjá það mikla dreifingu í samfélaginu að það er óhjákvæmilegt að grípa til einhverra takmarkana.“ 

Sóttvarnalæknir hyggst raunar gera einmitt það, en ekki liggur fyrir í hverju tillögurnar sem hann hyggst skila til heilbrigðisráðherra í dag felast. Runólfur hefur áhyggjur af því að smit berist inn á heilbrigðisstofnanir, veiran sé mjög útbreidd í samfélaginu og margir með lítil einkenni.

Telur ekki hægt að miða við alvarleika veikinda nú

Covid-göngudeildin hefur nú umsjón með 266 sjúklingum og Barnaspítali Hringsins heldur utan um 22 börn sem eru í einangrun. „Það hefur fjölgað mjög ört og bættust við 79 bara á síðasta sólarhring.“ Þetta kallar á aukna mönnun og það er áskorun um hásumar. 

Þau smituðu eru með væg einkenni og flokkast græn í litakóðunarkerfi deildarinnar en fjögur eða fimm teljast nokkuð veik, flokkast gul, og hjá einum sjúklingi er hætt við að innlögn sé yfirvofandi. Fyrir liggur eldri, bólusettur karlmaður á spítala með veiruna. Flest sem nú eru sýkt eru á fyrstu dögum veikinda og Runólfur segir því ómögulegt að segja til um fjölda þeirra sem eigi eftir að veikjast alvarlega. Þá versni fólki oft mjög hratt. „Einstaklingur sem getur verið með tiltölulega væg einkenni snemma dags getur verið kominn inn á spítalann að kvöldi,“ þá hafi það sýnt sig að alvarleg veikindi komi oftast ekki fram fyrr en eftir viku eða tvær. 

Fólki finnist það búið að skila sínu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mikil aðsókn var í sýnatöku við Suðurlandsbraut í Reykjavík í morgun.

Runólfur segir að staðan nú sé snúin í ljósi hás hlutfalls bólusettra. „Fólki finnst það vera búið að skila sínu, held ég, og það hefur litið svo á að eftir að bólusetningin kom til sögunnar ættum við að vera laus úr þessum viðjum. Ef við horfum til annarra landa hefur verið talsvert um alvarleg veikindi meðal bólusettra, þá sérstaklega eldri einstaklinga, viðkvæmra einstaklinga með alvarlega sjúkdóma eða ónæmisbældra af völdum lyfjameðferðar, við höfum séð það og það má búast við að það sama gerist hér ef smitið berst til þessara hópa. Það er okkar skylda að vernda þá eins og aðra þegna samfélagsins.“

Ásættanlegur fórnarkostnaður?

Sumir velta því fyrir sér hvort þetta verði sagan endalausa, spyrja hvort og þá hvenær frelsið verði í höfn. Hvort alvarleg veikindi meðal tiltölulega fárra einstaklinga séu ásættanlegur fórnarkostnaður til að meginþorri samfélagsins geti lifað í frjálsu, opnu samfélagi. Árlega deyi til dæmis hópur fólks úr inflúensu. Runólfi finnst þessi röksemdarfærsla ekki ganga upp. „Mér finnst þetta ekki eiga við vegna þess að þessi kórónuveirusýking er ekkert sambærileg við venjulega inflúensu, þó vissulega fái margir væg einkenni og ungt fólk almennt standi þetta vel af sér þá er veikin bara svo alvarleg hjá fjölmörgum sem eru jafnvel á besta aldri og ekki endilega illa komnir af völdum sjúkdóma þó þeir teljist í áhættuhópi. Þetta er bara mjög alvarleg sýking þegar hún leggst þungt á fólk og umfangið er það mikið að ef um væri að ræða inflúensufaraldur eins og þeir gerast verstir þá væru viðbrögðin þau sömu.“