Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Borgarráð samþykkir tillögu um athugun vöggustofanna

22.07.2021 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarráð samþykkti í dag að verða við tillögu borgarstjóra að fara þess á leit við forsætisráðherra að fram fari almenn og heildstæð athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Þá verði aðrar vöggustofur á tilteknu árabili jafnframt athugaðar eftir atvikum.

Í greinargerð sem fylgir tillögu borgarstjóra kemur fram að fullt tilefni sé til að taka út starfsemi vöggustofanna eftir að fram hafa komið upplýsingar um bága meðferð þeirra barna sem þar voru vistuð. Lagt er til að sérstakri nefnd verði falið að gera úttekt á starfseminni en skýrar lagaheimildir verði að liggja til grundvallar skipan, stöðu, valdheimildum og verkefnum nefndarinnar. 

SJá einnig: „Gróðrarstía andlegrar veiklunar“ 

Börn sem dvöldu á vöggustofunum skipta hundruðum

Fimm menn sem vistaðir voru á ofangreindum vöggustofum fóru nýverið þess á leit að borgarstjórn hafi forgöngu um að koma á fót teymi sérfræðinga til að rannsaka starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1949 til 1973. Tugir barna voru vistuð á vöggustofunum ár hvert á tímabilinu sem þær voru starfræktar og því skipta börn sem þar dvöldu hundruðum. Í flestum tilvikum voru þetta börn ungra, fátækra eða veikra mæðra sem ekki þóttu hæfar til þess að ala börn sín upp. 

Hlutu harða gagnrýni

Vöggustofurnar hlutu harða gagnrýni en þær þóttu ekki veita börnum fullnægjandi þroskaskilyrði. Því var haldið fram að börnin hafi skaðast andlega vegna þeirrar uppeldisstefnu sem notast var við. Í bréfi mannanna fimm kom fram að vöggustofurnar hafi minnt á sjúkrahús og að einungis líkamlegum þörfum barnanna hafi verið sinnt.