Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blikar í ágætri stöðu eftir jafntefli í Austurríki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Blikar í ágætri stöðu eftir jafntefli í Austurríki

22.07.2021 - 18:06
Karlalið Breiðabliks í knattspyrnu mætti austurríska liðinu Austria Wien í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í Austurríki í dag. Niðurstaða leiksins var 1-1 jafntefli en mörkin komu sitthvoru megin við leikhlé.

Breiðablik vann Racing Union frá Lúxemborg samanlagt 5-2 í fyrstu umferð forkeppninnar en austurríska liðið, Austria Wien, sat hjá. Blikar byrjuðu vel í leiknum í dag og sköpuðu sér góð færi en það voru hins vegar Austurríkismenn sem að komu boltanum fyrr í netið á 32. mínútu þegar Marco Djuricin skoraði. Blikar höfðu þá á 14. mínútu óskað eftir því að fá víti þegar Gísli Eyjólfsson fór niður í teig Austurríkismanna en fékk ekkert fyrir sinn snúð. 

1-0 var því staðan í leikhléi en Blikar biðu ekki lengi með að jafna leikinn eftir að flautað var af stað í seinni hálfleik. Alexander Sigurðarson skoraði þá mark á 47. mínútu og þar við sat. Allt er því jafnt fyrir seinni leik liðanna sem fer fram í Kópavogi næsta fimmtudag, 29. júlí.