Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Birgir áfram oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Félagsfundur Miðflokksfélags suðurkjördæmis samþykkti í gærkvöld framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar í haust með 93 prósentum atkvæða. Í fyrsta sæti er Birgir Þórarinsson alþingismaður sem leiddi listann síðast.

Í öðru sæti er Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, í þriðja sæti verður Heiðbrá Ólafsdóttir og í því fjórða Ásdís Bjarnadóttir. Karl Gauti Hjaltason alþingismaður sóttist einnig eftir fyrsta sætinu en hann ætlar að sækjast eftir oddvitasæti hjá Miðflokknum í suðvesturkjördæmi sem verður ákveðinn í næstu viku.

Töluverð endurnýjun er að verða á listum Miðflokksins, ný andlit voru kynnt til leiks í Reykjavíkurkjördæmi norður í fyrradag þar sem Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir leiðir listann en Ólafur Ísleifsson sóttist einnig eftir því sæti. Oddvitakjör í Reykjavíkurkjördæmi suður fer fram um helgina en tillaga uppstillingarnefndar var felld í síðustu viku. Þar var lagt til að Fjóla Hrund Björnsdóttir framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins leiddi listann en ekki Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður.