78 smit greindust innanlands í gær

22.07.2021 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
78 greindust með COVID-19 smit innanlands í gær og hafa ekki fleiri smit greinst á einum degi síðan 27. október. Nítján þeirra sem greindust með COVID í gær voru í sóttkví, það er tæplega fjórðungur. Fjórtán daga nýgengi innanlandssmita er komið í 63,5 á hverja 100 þúsund íbúa. Smitum hefur fjölgað mjög hratt undanfarið. Þau voru eitt, tvö eða ekkert á dag fram til 12. júlí, fjölgaði þá í fimm til tíu og síðustu þrjá daga hafa samtals 172 greinst með COVID-19 innanlands.

Af þeim 78 sem greindust með COVID í gær voru 52 fullbólusett og fimm búin að fá fyrri sprautu bólusetningar. Átján voru óbólusett.

287 eru í einangrun vegna COVID og 723 í sóttkví. Auk þeirra eru 1.111 í skimunarsóttkví eftir komuna frá útlöndum. Nýgengi smita á landamærunum er 16,1. Eitt staðfest smit greindist í gær og annað sem bíður niðurstöðu mótefnamælingar. Sex smit greindust á landamærunum í fyrradag. 

Sóttvarnastofnun Evrópu uppfærði í morgun kort sitt þar sem staða faraldursins í einstökum löndum er skilgreind með litakóða. Ísland er enn grænt en viðbúið er að það breytist við næstu uppfærslu kortsins, eftir viku.

Fréttin hefur verið uppfærð.