
33 hafa fundist látin á flóðasvæðunum í Henan í Kína
Svo mikið var vatnsveðrið á flóðasvæðunum að þar mældist jafn mikil úrkoma á þremur sólarhringum og venjulega á heilu ári, eða 640 millimetrar. Vatn flæddi um götur og inn í hús í fjölda borga í héraðinu. Einna verst var ástandið í héraðshöfuðborginni Zhengzhou, þar sem vatnsflaumurinn fossaði inn í neðanjarðarlestagöng borgarinnar og stóð farþegum jarðlestanna upp undir axlir. Þar drukknuðu á annan tug manna og hundruðum var bjargað við illan leik.
Stíflugarðurinn sem var sprengdur stóð nærri borginni Luoyang. Um tuttugu metra skarð hafði myndast í garðinn og óttast var að hann myndi gefa sig þá og þegar með skelfilegum afleiðingum. Því var gripið til þess örþrifaráðs að sprengja hann með skipulögðum hætti til að stýra hvorutveggja vatnsmagninu og farvegi þess.