Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við bara setjum undir okkur hausinn“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Um sjötíu dvelja nú í einangrun í farsóttarhúsum og von á fleirum í kvöld að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsa. Nýju hraðprófin hafa aðeins þyngt róðurinn þar í dag. Gylfi segist vera orðinn leiður á kórónuveirunni en að nú þurfi að setja undir sig hausinn. 

Hraðprófin aðeins til trafala

„Það sem er kannski aðeins að striða okkur eru þessi hraðpróf sem nú er hægt að taka, ef fólk greinist jákvætt úr þeim þarf það að fara í einangrun þar til að niðurstaða liggur fyrir úr PCR prófi,“ útskýrir Gylfi. Nú bíða 6 í farsóttarhúsi eftir slíkri niðurstöðu, en biðin tekur nokkrar klukkustundir. Í flestum tilvikum gefur PCR-prófið líka jákvæða niðurstöðu og fólkið þarf því að dvelja áfram í einangrun en ef ekki þarf að þrífa herbergið og það er þá kannski ekki hægt að bjóða það öðrum fyrr en eftir sólarhring. Þessi staða átti að sögn Gylfa þátt í þeirri ákvörðun Rauða krossins að taka hótel Rauðará aftur í notkun sem farsóttarhús. 

Nú megi ekki gefast upp

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Hótel Lind, annað farsóttarhúsanna við Rauðarárstíg í Reykjavík

Um helmingur þeirra sem nú dvelja í farsóttarhúsi er búsettur hér en hinn helmingurinn erlendir ferðamenn. Sumir eru nokkuð lasnir og nokkuð um að fólk hafi þurft að fara á COVID-göngudeildina til að fá vökva í æð enda niðurgangur hvimleiður fylgikvilli. Gylfi segir að enn sem komið er sé ekki þörf á að fjölga starfsfólki, og nóg pláss. „Með fjölgun ferðamanna fara hótelin eflaust að vilja fá húsnæði sitt aftur en er á meðan er og allavega meðan við erum að ganga í gegnum þennan skafl þá höfum við nóg pláss. Við bara setjum undir okkur hausinn og höldum áfram. Við skiljum það að það séu allir orðnir leiðir á ástandinu, það á líka við um okkur en við bara getum ekki gefist upp, við þurfum að halda áfram og ef einhvern tímann þarf á samstöðu að halda þá er það núna,“ segir Gylfi.