Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tveir dagar í Ólympíuleikana - Verðlaunaflóð Phelps

epa05469630 Michael Phelps of the USA celebrates after winning the men's 200m Butterfly final of the Rio 2016 Olympic Games Swimming events at Olympic Aquatics Stadium at the Olympic Park in Rio de Janeiro, Brazil, 09 August 2016.  EPA/DEAN LEWIS
Michael Phelps er sigursælasti íþróttamaður allra tíma á Ólympíuleikum. Mynd: EPA - AAP

Tveir dagar í Ólympíuleikana - Verðlaunaflóð Phelps

21.07.2021 - 16:39
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó á föstudag. Í aðdraganda leikanna rifjum við upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag rifjum við upp verðlaunaflóð sundkappans Michael Phelps.

Michael Phelps fæddist árið 1985 í Baltimore í Maryland-ríki í Bandaríkjunum. Hann fór að æfa sund sjö ára gamall af því að móðir hans vildi að hann lærði að synda en komst að því að honum fannst það einstaklega gaman og ákvað að halda áfram að æfa. Þegar hann var 10 ára bætti hann í fyrsta skipti landsmetið í 100 metra flugsundi í sínum aldursflokki. Slíkar bætingar héldu áfram upp aldursflokkana og enn í dag á hann átta aldursflokkamet í hinum ýmsu greinum. 

Fyrstu leikarnir og atlaga að meti

Phelps var aðeins 15 ára gamall þegar hann náði lágmarki á sína fyrstu Ólympíuleika í Sydney árið 2000. Þá var hann yngsti karlkeppandi Bandaríkjanna frá því Ralph Flanagan keppti árið 1932. Phelps endaði fimmti í 200 metra flugsundi á þessum fyrstu leikum. 

Fjórum árum síðar, í Aþenu 2004, voru bætingarnar orðnar umtalsverðar. Hann byrjaði með látum í sinni fyrstu grein, 400 metra fjórsundi, hvar hann synti á 4:08,26, nældi í gull og setti heimsmet. Hann fékk brons í 4x100 metra skriðsundi ásamt bandarísku boðsundssveitinni. Næst var þá komið að 200 metra skriðsundi, viðureign sem hafði verið nefnd  „Sund aldarinnar“ en þar barðist Phelps við Ian Thorpe og Pieter van den Hoogenband, hröðustu skriðsundskappa allra tíma. Phelps laut í lægra haldi fyrir báðum og varð bæði að sætta sig við brons og við það að hann næði ekki að bæta sjö gullverðlauna-met Mark Spitz frá leikunum 1972. 

Hann náði þó í gullverðlaun í þeim sundum sem hann átti eftir, 100 metra flugsundi, 200 metra flugsundi, 200 metra fjórsundi, 4x200 metra skriðsundi og 4x100 metra fjórsundi. Þar af voru þrjú Ólympíumet, eitt landsmet, og heimsmet í öðru af boðsundunum. Phelps, aðeins 19 ára gamall, átti þar með næst bestu frammistöðu á einum Ólympíuleikum, og varð aðeins annar karlsundkappinn í sögunni til þess að vinna fleiri en tvo einstaklingstitla á einum leikum. 

Gullflóð í Peking

Þegar leikarnir fóru fram í Peking árið 2008 varð Phelps orðinn 23 ára gamall og keppti aftur í átta greinum, fimm einstaklingsgreinum og þremur boðsundum. 100 og 200 metra flugsundi, 200 og 400 metra fjórsundi, 200 metra skriðsundi, 4x100 metra fjórsundi og skriðsundi og 4x200 metra skriðsundi. Skemmst er frá því að segja að Phelps fékk gullverðlaun í þeim öllum og fyrir utan 100 metra flugsundið þar sem hann setti „einungis“ Ólympíumet, þá bætti hann heimsmetið í hinum greinunum sjö. 

Áttundu gullverðlaunin gerðu Phelps að sigursælasta keppanda á Ólympíuleikum í sögunni og met Mark Spitz frá árinu 1972 því bætt. Eftir bætinguna sagði Phelps einfaldlega: „Met eru sett til þess að þau séu bætt, sama hver þau eru...Hver sem er getur gert hvað sem hann ákveður.“

London og Ríó

Fyrir leikana í London 2012 hafði Phelps tilkynnt að hann myndi aldrei aftur keppa í átta greinum og að hann langaði jafnvel að prófa nýjar greinar. Hann náði hins vegar lágmarki fyrir sömu átta greinar og hann hafði sigrað í árið 2008 en endaði á að keppa í sex greinum á leikunum og ná sér í fjögur gull og tvö silfur. Eftir leikana tilkynnti Phelps að hann væri hættur að synda. 

Sú ákvörðun entist þó aðeins í tæp tvö ár en 2014 var hann mættur aftur í laugina og tveimur árum síðar var hann kominn með keppnisrétt í sex greinum á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann var fánaberi Bandaríkjanna á opnunarhátíðinni og endaði á að taka gullverðlaun í fimm af greinunum sex sem hann keppti í.

Alls hafði hann því sankað að sér 23 gullverðlaunum og samtals 28 verðlaunum á leikunum fjórum sem er langmesti fjöldi verðlauna í sögunni og met sem verður sennilega seint bætt. Heimsmet hans í 400 metra fjórsundi stendur enn og þá á hann þrjú heimsmet ásamt bandarísku boðsundssveitinni í 4x100 metra fjórsundi, 4x100 metra skriðsundi og 4x200 metra skriðsundi.