Sigurbjörn Árni hefur ekki enn vanist athyglinni

Mynd: RÚV / RÚV

Sigurbjörn Árni hefur ekki enn vanist athyglinni

21.07.2021 - 17:36
Sigurbjörn Árni Arngrímsson er á leið á sína fimmtu Ólympíuleika og mun lýsa keppni í frjálsíþróttum af sinni alkunnu snilld á RÚV. Hann furðar sig alltaf jafn mikið á athyglinni sem hann fær í kringum lýsingarnar og er ekki enn farinn að venjast henni.

„Nei, mér finnst það afskaplega skrítið. Ég verð eiginlega að segja það en að sjálfsögðu gaman." Sigurbjörn Árni er fyrir löngu búinn að festa sig í sessi sem einn skemmtilegasti lýsandi landsins enda hafsjór af fróðleik. Hann hlakkar mikið til að glíma við leikana í Tókýó.

„Þetta er alltaf gaman og jafn spennandi. Ég fékk grænt ljós á að fara og þá notaði ég tækifærið og dreif mig úr því að mér var boðið það," segir Sigurbjörn sem hefur glímt við veikindi að undanförnu.

Mikil spenna í ákveðnum greinum

En hvar verður mesta spennan í frjálsíþróttakeppninni í ár? „Ég held að við fáum mjög spennandi 100 metra hlaup kvenna, það er búið að vera að setja heimsmet í 400 metra grindahlaupi karla og kvenna, það eru komin tvö heimsmet í 10 þúsund metra hlaupi kvenna í ár og í kúluvarpi karla þannig að ég held að það verði margar góðar greinar," segir Sigurbjörn Árni og nefnir auk þess Simone Biles í fimleikunum og Novak Djokovic í tennis.

Gæti hagnast Íslandi

Sigurbjörn Árni býst við góðum Ólympíuleikum þrátt fyrir ástandið í heiminum. Hann nefnir í því samhengi að keppendur hafi minna verið að keppa en á móti náð að einbeita sér meira að æfingum undir minni pressu. Hann segir spennandi óvissu fólgna í því að engir áhorfendur verði á viðburðum leikanna. Það komi t.d. illa niður á Japönum en gæti hagnast þjóðum eins og Íslendingum.

Sigurbjörn Árni ræddi við Kristjönu Arnarsdóttur fyrir brottförina til Tokýó og má sjá viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Keppni á Ólympíuleikunum hófst í dag þó leikarnir sjálfir verði ekki settir fyrr en á föstudaginn.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Mikil spenna fyrir 100 metrunum í Tókíó