Saúl Níguez sagður á leið til Liverpool

epaselect epa05280270 Atletico Madrid's player Saul Niguez (R) celebrates with Koke (L) after scoring the opening goal during the UEFA Champions League semifinal first leg soccer match between Atletico Madrid and Bayern Munich played at the Vicente
 Mynd: EPA - EFE

Saúl Níguez sagður á leið til Liverpool

21.07.2021 - 21:36
Íþróttablaðið Sport greinir frá því í dag að enska úrvalsdeildarliðið Liverpool hafi gert tilboð í spænska miðvallarleikmanninn Saúl Níguez sem leikur með Spánarmeisturum Atletico Madrid.

 

Samkvæmt frétt blaðsins, sem hefur aðsetur í Barcelona, á Liverpool að hafa gert tilboð í Spánverjann sem hljóðar upp á 40 milljónir evra ásamt svissneska sóknarmanninum Xherdan Shaquiri. Vitað er að Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, er áhugasamur um Níguez, sem sést til hægri á meðfylgjandi mynd þar sem hann fagnar marki ásamt liðsfélaga sínum, Koke.

Nokkrar vendingar hafa verið með Níguez á leikmannamarkaðnum í sumar. Um tíma virtist sem hann væri á leið til Barcelona í skiptum fyrir franska landsliðsmanninn Antione Griezmann, sem lék einmitt áður með Atletico, en þau viðskipti virðast hafa farið út um þúfur. 

Af því tilefni lét þjálfari Atletico, hinn litríki Diego Simeone, hafa eftir sér í vikunni að öðru fremur vonaðist hann til þess að Griezmann nyti velgengni hjá liði sínu, Barcelona, en óhætt er að segja að Frakkinn hafi ekki staðið undir væntingum þar á bæ eftir að Börsungar keyptu hann á 120 milljónir evra fyrir tveimur árum.

Hver sem endanlegur áfangastaður hins 26 ára gamla Níguez verður þá virðist ljóst að Simeone er tilbúinn að láta hann fara til að búa til pláss á launaskránni fyrir nýjan framherja. Þykir líklegt að þar standi hnífurinn í kúnni hvað Griezmann varðar; hann er á svimandi launum hjá Barcelona og óvíst að hann sleppi undir launaþakið hjá Atletico að svo stöddu.  

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Möguleiki á að Henderson yfirgefi Liverpool

Fótbolti

Liverpool staðfestir komu Konate

Fótbolti

Atletico Madrid á toppnum fyrir lokaumferðina