Neyðarástand í Bresku Kólumbíu vegna skógarelda

21.07.2021 - 00:36
In this photo taken by a drone, damaged structures are seen in Lytton, British Columbia, Friday, July 9, 2021, after a wildfire destroyed most of the village on June 30. (Darryl Dyck/The Canadian Press via AP)
Sviðin jörð og brunnin hús og tré í bænum Lytton í Bresku Kólumbíu, þar sem mesti hiti sem mælst hefur í Kanada mældist fyrr í þessum mánuði. Mynd: AP
Yfirvöld í Bresku Kólumbíu í Kanada lýstu í dag yfir neyðarástandi í fylkinu öllu vegna mikilla skógar- og gróðurelda sem þar hafa logað vikum saman. Áður hafði verið lýst yfir neyðarástandi á afmörkuðum svæðum innan fylkisins. Nær 300 skógar- og gróðureldar loga nú í Bresku Kólumbíu og ekkert útlit fyrir að þeim fækki í bráð þar sem spáð er áframhaldandi hitabylgju í fylkinu, þurrviðri og vaxandi, hlýjum vindum.

 Með því að lýsa yfir neyðarástandi fá fylkisyfirvöld meðal annars auknar heimildir til að skipa fólki að yfirgefa heimili sín í stórum stíl, koma upp fjöldahjálparstöðvum og útvega fólki bráðabirgðahúsnæði og aðrar bjargir.

Um 5.700 manns hefur þegar verið gert að forða sér og um 32.000 til viðbótar hafa fengið tilmæli um að búa sig undir að yfirgefa heimili sín með litlum fyrirvara. Um 3.000 ferkílómetrar skóg- og gróðurlendis í Bresku Kólumbíu hafa þegar orðið eldunum að bráð. Það er þrefalt stærra svæði en á sama tíma í meðalári. Yfir 3.000 slökkviliðsmenn leggja dag við nótt í baráttunni við eldana.