Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mannskæð flóð um miðbik Kína

21.07.2021 - 01:38
Vehicles are stranded after a heavy downpour in Zhengzhou city, central China's Henan province on Tuesday, July 20, 2021. Heavy flooding has hit central China following unusually heavy rains, with the subway system in the city of Zhengzhou inundated with rushing water. (Chinatopix Via AP)
 Mynd: AP
Minnst tólf manns létu lífið þegar vatn fossaði inn í neðanjarðarlestagöng í borginni Zhengzhou í Henan-héraði í Kína, þar sem úrhellisrigningar hafa valdið hamfaraflóðum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu borgaryfirvalda. Í tilkynningunni segir að „hrina óvenjulegra og mikilla slagaveðra" hafi dunið á borginni „og valdið því að vatn safnast upp í neðanjarðarlestagöngum Zhengzhou."

Úrhellið hefur valdið miklum flóðum víða í Henan-héraði og herinn varar við því að hætta sé á að stór og mikill stíflugarður geti gefið sig. Í tilkynningu frá hernum segir að 20 metra skarð hafi myndast í Yihetan-stífluna við borgina Luoyang, í héraðinu miðju, og varað er við því að „stíflan geti brostið þá og þegar."

Flóðin hafa sett líf milljóna Henan-búa úr skorðum. Yfir tvö hundruð þúsund íbúum Zhengzhou hefur verið gert að yfirgefa heimili sí. Tugir þúsunda hafa þurft að gera hið sama annars staðar í héraðinu og enn fleiri verið beðin að vera við því búin að þurfa að flýja fyrirvaralaust. Herinn er með mikið lið og viðbúnað í héraðinu vegna flóðanna, bæði við fyrirbyggjandi störf og björgunaraðgerðir.