Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimastjórn Grænlands íhugar upptöku bólusetningarpassa

Mynd með færslu
 Mynd: KNR
Heimastjórnin á Grænlandi íhugar nú að taka upp bólusetningarvegabréf. Þeim sem ekki hafa fengið bólusetningu verður þá óheimilt að heimsækja fjölmenna staði á borð við kaffihús og líkamsræktarstöðvar. Ungmennum verður boðið upp á bólusetningu nú í vikunni.

Öllum 16 til 17 ára ungmennum í Nuuk, höfuðstað Grænlands, er boðið upp á bólusetningu við COVID-19 næstkomandi föstudag. Grænlenska ríkisútvarpið greinir frá þessari ákvörðun sveitartjórnar Sermersooq en ungmennunum verður gefið bóluefni Pfizer.

Heimastjórn Grænlands hefur viðrað hugmyndir um að í landinu verði tekið upp bólusetningarvegabréf.

Sveitarstjórnin segir því í tilkynningu sem sérstaklega er að ungu fólki að bólusetning kunni að verða nauðsynleg forsenda þess að mega fara á kaffihús, líkamsræktarstöðvar og í kvikmyndahús svo dæmi séu nefnd.  

Auk þess verndi ungmennin sína nánustu, vini og ættingja með bólusetningunni. Reglur varðandi bólusetningarvegabréf hafa þó ekki enn tekið gildi á Grænlandi, en auk framangreindra takmarkana kunna þær að fela í sér sektir fyrir brot og heimild lögreglu til að taka stikkprufur á förnum vegi.

Heimastjórnin veltir nú fyrir sér á hvaða formi bólusetningarvegabréfið skuli vera en andstaða er við bólusetningum barna yngri en sextán ára. Tuttugu og fimm eru með virkt kórónuveirusmit á Grænlandi og ríflega 19 þúsund af 56 þúsund íbúum teljast fullbólusett.