Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Háttsettur kaþólikki í klandri vestra

21.07.2021 - 23:08
epa04943219 A member of the German Bishops' Conference with his hands folded for prayer during the opening church service at the autumn conference of the clerical institution in the cathedral of Fulda, Germany, 22 September 2015. The Catholic bishops
 Mynd: EPA - DPA
Aðalritari Samtaka kaþólskra biskupa í Bandaríkjunum hefur sagt af sér vegna ásakana um að hann hafi stundað bari fyrir samkynhneigða og notað stefnumótaforritið Grindr, samkvæmt tilkynningu sem biskuparnir sendu frá sér á þriðjudag.

Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu á þriðjudag þar sem þau viðurkenndu réttmæti ásakana um misferli gagnvart aðalritara sínum, Jeffrey Burrill, sem lagðar voru fram af kaþólska fréttamiðlinum The Pillar. 

Þetta kemur fram í skeyti frá AFP fréttastofunni. „Til að forðast að valda frekari truflun á rekstri og áframhaldandi starfi samtakanna hefur Monsignor Burrill sagt af sér og tekur afsögnin þegar gildi,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. 

Kaþólskir prestar vinna skírlífisheit og leggst kaþólska kirkjan gegn því að fólk lifi kynlífi nema innan gagnkynhneigðs hjónabands. The Pillar birti nýverið grein þar sem fram kom að rannsókn fréttamiðilsins hefði leitt í ljós gögn sem staðsettu farsíma Burrill á þekktum samkomustöðum fyrir samkynhneigða. 

Gögn úr símanum hans bentu einnig til reglulegrar notkunar á Grindr milli áranna 2018 og 2020. 

Biskupasamkoman kvaðst „taka allar ásakanir um misferli alvarlega og muni beita sér fyrir viðeigandi skrefum til að taka á þeim.“ 

Ásakanirnar á hendur Burrill fela ekki í sér brot á lögum en aðalritstjóri The Pillar, JD Flynn, taldi upplýsingarnar um Burrill varða almannahagsmuni og birti því greinina. Gerðar væru kröfur til kaþólskra presta og ef hegðun þeirra væri ekki í samræmi við væntingarnar gæti það stuðlað að óheilbrigðri menningu leyndarhyggju og undirferlis innan kirkjunnar.