Hættir við framboð og segist saklaus

Mynd með færslu
 Mynd: Frjálslyndi lýðræðisflokkur
Guðlaugur Hermannsson verður ekki í framboði fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn í komandi kosningum. Þetta ákvað Guðlaugur eftir að fréttir voru sagðar af því að hann væri meðal kærðra í máli vegna fjársvika úr Ábyrgðarsjóði launa. Guðlaugur segir í yfirlýsingu að hann hafi ekkert brotið af sér.

RÚV sagði frá því í gær að Guðlaugur væri meðal ákærðra. Þá náðist ekki í Guðlaug en Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, sagðist fyrst hafa frétt af málinu fyrir stuttu. Guðmundur Franklín vildi þá ekki segja til um hvort að Guðlaugur yrði áfram á lista. Guðmundur staðfesti svo í samtali við fréttastofu í morgun að Guðlaugur hefði ákveðið að taka ekki sæti á listanum. „Hann vill ekki valda okkur neinu tjóni, þessi heiðursmaður,“ sagði Guðmundur Franklín. 

Guðmundur birti yfirlýsingu frá Guðlaugi á Facebook-síðu sinni í morgun. Þar segir Guðlaugur að tveimur kröfum sé blandað saman, annars vegar sinni persónulegu kröfu, sem Ábyrgðarsjóður hafi hafnað, og hins vegar kröfu sem útbúin hafi verið í hans nafni án hans vitundar. Guðlaugur gagnrýnir starfsmann Ábyrgðarsjóðs launa og segist ekki hafa fengið rétta málsmeðferð hjá sjóðnum. Að auki gerir Guðlaugur því skóna að ákæruna megi rekja til baráttu hans og málið sé notað til að koma höggi á hann í framboði fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn.

Samkvæmt ákæru er Guðlaugur ákærður fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa reynt að blekkja starfsmenn Ábyrgðarsjóðs launa til að samþykkja kröfu að fjárhæð 7,8 milljónir króna. Sú krafa og aðrar eru settar fram vegna meintra starfa hjá fyrirtækinu Skipamiðlun sem varð gjaldþrota. Krafa Guðlaugs var sett fram vegna launa sem hann hefði átt að hafa fengið greidd frá Skipamiðluninni á sama tíma og hann var í fullu starfi sem vagnstjóri og keyrði að auki rútu hluta þess tíma. Guðlaugur er í ákæru sagður hafa vakið, styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna Ábyrgðarsjóðs að hann hefði verið launþegi og ekki fengið greidd laun. Þessari kröfu hafnaði Ábyrgðarsjóður.

Guðlaugur segir í samtali við fréttastofu að þessi krafa, upp á 7,8 milljónir, sé ekki frá honum komin. Hann hafi aðeins gert kröfu um greiðslu launa vegna þriggja vikna vinnu sem hann hafi unnið persónulega fyrir eiganda fyrirtækisins. Guðlaugur segir að þá hafi hann unnið að fisksölumálum fyrir manninn persónulega en aldrei fyrir fyrirtæki hans. Kröfu hans hafi verið hafnað og hann þá talið að málinu væri lokið.

Fréttin hefur verið uppfærð.