Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Greinileg endurnýjun á listum Miðflokksins

21.07.2021 - 19:49
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði
 Mynd: RÚV/Freyr Arnarson
Félagsfundur Miðflokksfélags Suðurkjördæmis fer fram nú í kvöld þar sem lagður verður fram til samþykkis framboðslisti flokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust. Hann hófst klukkan 20. Nokkur endurnýjun er að verða á listum flokksins en ný andlit voru kynnt til leiks í Reykjavíkurkjördæmi norður á mánudag þar sem Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir leiðir listann en Ólafur Ísleifsson sóttist þá einnig eftir því.

Búist er við að Birgir Þórarinsson, alþingismaður, verði í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi en hann leiddi listann síðast og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur í öðru sæti. Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður, sóttist eftir fyrsta sætinu en hann ætlar að sækjast eftir fyrsta sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi sem kynntur verður í næstu viku.

„Ómögulegt að spá fyrir um áhrif á fylgi flokksins“

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir ljóst að Miðflokkurinn vilji endurnýja þingmannalið sitt en ómögulegt sé að segja til um hvort það hafi nokkuð að segja fyrir fylgi flokksins. 

„Átta karlar og ein kona eru í þingflokknum. Nú er verið að skipta út sitjandi þingmönnum fyrir konur. Það er eiginlega ómögulegt að spá fyrir um hvort það eigi eftir að hafa áhrif á fylgi flokksins, “ sagði Ólafur Þ. Harðarson í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann. 

Oddvitakjör í Reykjavíkurkjördæmi suður um helgina

Oddvitakjör í Reykjavíkurkjördæmi suður fer fram um helgina en tillaga uppstillingarnefndar var felld í síðustu viku. Þar var lagt til að Fjóla Hrund Björnsdóttir leiddi listann en ekki Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður.