
Götuáreitni gæti varðað við lög
Baráttufólk fyrir réttindum kvenna og stúlkna hefur engu að síður gagnrýnt tillögurnar sem ganga að þeirra sögn ekki nógu langt, að því er fram kemur í fréttaskeyti frá AFP.
Ríkisstjórnin hét því að bæta löggjöfina eftir morðið á Söru Everard. Henni var rænt þegar hún gekk heim á leið í London. Morðinu fylgdi reiðialda vegna skorts á öryggi kvenna á almannafæri.
Í stefnuskrá sem innanríkisráðuneyti Bretlands kynnti kemur fram að fleiri gerendur verði dregnir fyrir dóm vegna brota á borð við nauðganir, heimilisofbeldi, ofsóknir og kynferðislega áreitni.
Ráðuneytið sagðist ætla að vinna með lögreglu innan gildandi laga til að „bregðast betur við áreitni á götum úti“, eins og það er orðað, og styðja konur sem tilkynna um áreitni á almannafæri. Þar kemur einnig fram að reynt verði að bæta í eyður í lögunum og mögulega gera slíka götuáreitni refsiverða.
„Glæpir eins og nauðganir, umskurður á kynfærum kvenna, ofsóknir, áreitni og stafrænir glæpir eins hefndarklám og símamyndatökur upp undir pils eiga sér stað á hverjum degi,“ skrifaði Priti Patel, innanríkisráðherra, í formála að stefnumörkunarskjali. „Við þurfum að að hlusta í auknum mæli á konur og stúlkur, gera meira til að koma í veg fyrir ofbeldi, veita fórnarlömbum stuðning og sækja gerendur til saka," segir þar ennfremur.