Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Götuáreitni gæti varðað við lög

21.07.2021 - 14:58
A missing sign outside Poynders Court on the A205 in Clapham, London Wednesday March 10, 2021 during the continuing search for Sarah Everard who has been missing for a week. The 33-year-old disappeared on Wednesday March 3 after leaving a friend's house in Clapham, south London, and began walking to her home in Brixton. The Met Police have said that a serving diplomatic protection officer is being held over the disappearance of Sarah Everard. The officer being held is understood to be the subject of a separate allegation of indecent exposure.  (Victoria Jones/PA via AP)
 Mynd: AP
Stjórnvöld í Bretlandi sögðust í dag íhuga að gera götuáreitni sem beint er að konum að glæpsamlegu athæfi, lögum samkvæmt. Þetta er í samræmi við nýja stefnu hins opinbera til að stemma stigu við ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Baráttufólk fyrir réttindum kvenna og stúlkna hefur engu að síður gagnrýnt tillögurnar sem ganga að þeirra sögn ekki nógu langt, að því er fram kemur í fréttaskeyti frá AFP. 

Ríkisstjórnin hét því að bæta löggjöfina eftir morðið á Söru Everard. Henni var rænt þegar hún gekk heim á leið í London. Morðinu fylgdi reiðialda vegna skorts á öryggi kvenna á almannafæri. 

Í stefnuskrá sem innanríkisráðuneyti Bretlands kynnti kemur fram að fleiri gerendur verði dregnir fyrir dóm vegna brota á borð við nauðganir, heimilisofbeldi, ofsóknir og kynferðislega áreitni. 

Ráðuneytið sagðist ætla að vinna með lögreglu innan gildandi laga til að „bregðast betur við áreitni á götum úti“, eins og það er orðað, og styðja konur sem tilkynna um áreitni á almannafæri. Þar kemur einnig fram að reynt verði að bæta í eyður í lögunum og mögulega gera slíka götuáreitni refsiverða. 

„Glæpir eins og nauðganir, umskurður á kynfærum kvenna, ofsóknir, áreitni og stafrænir glæpir eins hefndarklám og símamyndatökur upp undir pils eiga sér stað á hverjum degi,“ skrifaði Priti Patel, innanríkisráðherra, í formála að stefnumörkunarskjali. „Við þurfum að að hlusta í auknum mæli á konur og stúlkur, gera meira til að koma í veg fyrir ofbeldi, veita fórnarlömbum stuðning og sækja gerendur til saka," segir þar ennfremur.

Jón Agnar Ólason