Gosórói hefur legið niðri síðan í morgun

21.07.2021 - 13:13
Gos byrjað aftur 2. júlí 2021.
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Enn sveiflast styrkur eldgossins á Reykjanesskaga. Gosórói fór minnkandi um klukkan níu í morgun eftir að hafa verið stöðugur í nótt, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

„Gosóróinn hélst alveg uppi þangað til upp undir níu í morgun. Þá féll hann aftur niður og hefur legið niðri síðan þá. Það er lítið að frétta,“

Hraun hefur streymt niður í Meradali undanfarið en ekki í Nátthaga. Meðan hraun streymdi einna helst niður í Nátthaga óttuðust margir um Suðurstrandarveg. Lovísa segir að eins og er séu líkur á að þetta mynstur haldist.

„Það hefur lítið verið að fara niður í Nátthaga seinustu vikurnar. Það virðist vera að hraunið streymi bara í þá átt. Gígurinn beini hrauninu í þá átt,“ sagði Lovísa.

Hún segir of snemmt að segja til um hvort Suðurstrandarvegur sé hólpinn.

„Það getur alltaf brotið sér aftur leið og farið aftur niður í Nátthaga. Í rauninni er ekki hægt að segja til um það því miður.“

Vísindamenn hafa ekki geta flogið yfir gosstöðvarnar undanfarið vegna veðurs og vegna þess að flugvélin sem notuð hefur verið er bundin í öðrum verkefnum.

„Það hefur verið reynt að setja upp sjónrænar mælingar. Það hafa verið sett upp skilti og reynt að sjá hve hátt hraunið hefur flætt en það hefur ekkert flug verið undanfarið,“ sagði Lovísa Mjöll.

 

Andri Magnús Eysteinsson