Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fordæma áætlanir um að blása lífi í kýpverskan draugabæ

epa09353507 A handout photo made available by the Turkish President Press office shows Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaking at the Turkish Cypriots parliament in the Turkish-administered northern part of the divided capital Nicosia, Cyprus, 19 July 2021. Erdogan is in Northern Cyprus for celebrations of 47th anniversary of the Turkey’s Peace Operation in Cyprus.  EPA-EFE/TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE
Leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópsambandsins gagnrýna Tyrklandsforseta og leiðtoga Kýpurtyrkja harðlega fyrir yfirlýsingar þeirra og áform um að flytja Kýpurtyrkja til draugabæjarins Varosha. Tyrkir blása á gagnrýni Vesturveldanna og segja hana markleysu.

Recep Tayyip Erdogan heimsótti norðurhluta Kýpur í gær, sem heimamenn kalla Tyrkneska lýðveldið Norður-Kýpur og Tyrkir einir viðurkenna sem sjálfstætt ríki. Tilefnið var að 47 ár voru liðin frá innrás Tyrkja á Kýpur sem leiddi til umdeildrar skiptingar eyjunnar sem enn er við lýði. Ein afleiðing þess er að ferðamannabærinn Varosha, útbær norður-kýpversku borgarinnar Famagusta, var yfirgefinn og hefur verið  bannsvæði og einskismannsland allar götur síðan.

Þeir Erdogan og Ersin Tatar, leiðtogi Norður-Kýpur, lýstu því yfir í gær að blása eigi „nýju lífi í Varosha" undir norður-tyrkneskum yfirráðum. Stjórnvöld á Kýpur og í Grikklandi brugðust ókvæða við og það gerði Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins líka. Fordæmdi hann yfirlýsingar Erdogans og Tatars og varaði þá eindregið við áframhaldandi ögrunum og „einhliða aðgerðum í bága við alþjóðalög."

Tyrkneska utanríkisráðuneytið sagði ekkert mark að orðum Borrells og lýsti fullum og óbilandi stuðningi Tyrkja við fyrirætlanir Kýpurtyrkja um að flytja fólk inn í Varosha á ný.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi svo frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem hann tók undir fordæmingu og viðvaranir Borrells. Benti hann á að fyrirætlanir Tyrkja og Kýpurtyrkja færu augljóslega í bága við ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 550 og 789, sem kveði skýrt á um að Varosha skuli lúta yfirráðum Sameinuðu þjóðanna.