Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórða bylgjan hafin í Frakklandi

21.07.2021 - 15:55
epa08966545 A pedestrian wearing a protective face mask walks near Notre-Dame Cathedral in Paris, France, 26 January 2021. There are growing calls by France's top medical advisers to impose a third national lockdown to combat the spread of Covid-19 coronarivus as number of cases continue to rise - though the French government have not yet formalized a decision on the matter yet.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Kórónuveirusmitum í Frakklandi hefur fjölgað um 150% síðustu vikuna og fjórða bylgjan nú gengin í garð. Það er Delta-afbrigðið sem ræður þar ríkjum sem víða annars staðar í álfunni. Þetta kom fram í ræðu Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, í dag. Um 18 þúsund manns greindust með kórónuveiruna í gær en 96% hinna smituðu voru óbólusettir.

Krafa um heilsupassa tók gildi í dag

Í dag tekur í gildi krafa um svokallaðan heilsupassa í Frakklandi. Til þess að fá slíkan passa skal fólk, eldra en 18 ára, hafa annað hvort bólusetningarvottorð eða neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku. Macron, Frakklandsforseti, tilkynnti þetta fyrir rúmri viku. Gripið er til þessara aðgerða til þess að koma í veg fyrir útgöngubann (e.lockdown) þar í landi en þau hafa nú þegar verið þrjú í Frakklandi. Þetta kemur fram á fréttaveitu France24.

Heilsupassann þarf að sýna á opinberum stöðum þar sem fleiri en fimmtíu manns koma saman. Krafan nær því helst til íþrótta- og menningarviðburða, listasafna og fleiri samkomustaða. Frá og með ágúst verður fólk einnig að framvísa heilsupassanum á kaffihúsum, veitingastöðum og í verslunarmiðstöðvum. 

Skiptar skoðanir á heilsupassanum

Mjög skiptar skoðanir eru á kröfunni um heilsupassann en víða í Frakklandi býr fólk svo að eina matvöruverslun í nánd er staðsett í verslunarkjarna eða miðstöð. Því líta sumir svo á að ekki sé sanngjarnt að skikka fólk í skimun eða bólusetningu til þess að það geti orðið sér úti um nauðsynjavörur. Í frétt BBC kemur þá fram að margir séu þó samvinnuþýðir en hvati margra er fyrst og fremst að koma í veg fyrir enn eitt útgöngubannið.