Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm í varðhaldi eftir slagsmál á Akureyri í gærkvöld

21.07.2021 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Yfirheyrslur eru að hefjast yfir fimm mönnum sem handteknir voru eftir slagsmál í miðbæ Akureyrar í gærkvöld. Einn slasaðist talsvert og gekkst undir aðgerð á SAK.

Hópslagsmál brutust út á kaffihúsinu Bláu könnunni á níunda tímanum í gærkvöld. Við það brotnaði rúða á kaffihúsinu og köstuðust tveir, í það minnsta, í gegnum rúðuna. Við það skarst einn illa og var hann fluttur á bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri þar sem hann gekkst undir aðgerð.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri segir að þeir sem sitji í varðhaldi séu allt erlendir menn og ekki búsettir á Akureyri. Þeim hafi sinnast eitthvað og það hafi leitt til slagsmála. Ekki sé um að ræða uppgjör hópa af neinu tagi. Nú sé verið að undirbúa yfirheyrslur yfir mönnunum og er reiknað með að þeim ljúki í dag.

Mjög margir ferðamenn eru á Akureyri í blíðviðrinu þessa dagana. Ef frá eru talin þessi slagsmál í gærkvöld segir lögreglan lítið um vandræði og ástandið sé almennt gott.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV