Fá aldrei nóg af óbyggðunum

Mynd: RÚV / RÚV

Fá aldrei nóg af óbyggðunum

21.07.2021 - 16:00

Höfundar

„Ef ég færi ekki hérna upp eftir þá veit ég ekki hvernig það færi,“ segir Gísli Rafn Jónsson leiðsögumaður. Hann hefur farið í óteljandi ævintýraferðir um hálendið í nágrenni Öskju og býður ferðamönnum upp á einstaka náttúru.

Óbyggðirnar kalla og hálendið er óþrjótandi uppspretta ævintýra. Sama fjölskyldan hefur boðið upp á hálendisferðir í Öskju og nágrenni í ríflega fjörutíu ár og þar á bæ fá menn aldrei nóg af óbyggðunum.

Viðkomustaðirnir eru margir í hálendisferðum um nágrenni Öskju. Stoppað er við Herðubreiðarlindir, Jökulsá, þar sem geimfararnir æfðu sig fyrir tunglferðina og við Grafarlandaá svo dæmi séu nefnd. „Fólki finnst magnað að það geti fengið sér að drekka úr þessari á,“ segir Gísli Rafn Jónsson, eigandi Mývatn Tours. Íslendingarnir megi þakka fyrir hvað við erum rík að hafa þetta vatn sem drekka má beint úr ánni.  

„Þetta er gríðarlega stór askja, og eftir henni heita allar öskjurnar,“ segir Gísli um Öskju. Í henni er að finna bæði Víti og Öskjuvatn sem hægt er að baða sig í. Öskjuvatn myndaðist í eldgosi árið 1875 þegar gólf öskjunnar féll ofan í kvikuhólfið og fylltist af vatni. Það var lengi vel dýpsta vatn landsins, um 220 metra djúpt. Gísli líkir Víti við Bláa lónið, brennisteinssvatn, 23-25 gráður, og hann hefur baðað sig þar ósjaldan.  

„Ef ég færi ekki hérna upp eftir þá veit ég ekki hvernig það væri,“ segir Gísli. Honum finnst alltaf jafn unaðslegt að fara í Öskju og horfa yfir Herðubreið. Í stilltu veðri skapast þarna algjör kyrrð.   

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svæði Öskju spannar um 50 ferkílómetra

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Sjómannsdóttir fékk langþráð símtal frá Vitafélaginu

Mannlíf

Sefur undir björtum himni allar nætur

Mannlíf

Notar lúpínu til að lita silki

Menningarefni

Gömlu salthúsi breytt í fallegt listrými