Búið að aflýsa hátíðinni Flúðir um versló

Mynd með færslu
 Mynd: Flúðir um versló - RÚV
Búið að er aflýsa hátíðinni Flúðir um versló sem halda átti um verslunarmannahelgina. Er það gert vegna fjölgunar smita í samfélaginu. Bergsveinn Theodórsson er skipuleggjandi hátíðarinnar.

„Við náttúrulega erum búin að vera on og off í undirbúningi á þessari hátíð, sem átti að fara fram í sjötta skiptið, en í ljósi þessarar aukningar í smitum þá sjáum við okkur ekki fært að vera að stuðla að því að fólk sé að safnast saman, og viljum með þessu sýna ábyrgð. Þetta er svekkelsi og draugfúlt en svona er þetta víst,“ segir Bergsveinn.

Hann segir skipuleggjendur hátíða vera í erfiðri stöðu.

„Það eru allir á sama stað, það veit enginn neitt. Það koma engar tillögur eða skipanir eða nokkur skapaður hlutur frá stjórnvöldum. Þetta er sett í hendurnar á skipuleggjendum sjálfum og við eigum að taka ákvarðanirnar. Þetta er mjög erfið staða. Ég öfunda engan sem er að skipuleggja stóran viðburð,“ segir hann.

Enn er stefnt á að halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Innipúkann og  Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi. Jón Aðalsteinn Bergsveinsson kynningarstjóri UMFÍ staðfestir það í samtali við fréttastofu. Hann segir að grannt sé fylgst með stöðunni en gert er ráð fyrir 10.000 gestum þar. Til að mynda séu til sviðsmyndir frá því í fyrra til að skipta mótinu upp í hólf. Þá er enn stefnt að útitónleikum á sunnudagskvöldinu í Neskaupstað.

Forsvarsmenn Mærudaga á Húsavík og Bræðslunnar á Borgarfirði eystra, sem fram fara um helgina, stefna enn að því að halda hátíðirnar. Brugðist verði við í snatri ef stjórnvöld ákveða að herða samkomutakmarkanir.