Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Arnar kærir forstjóra ÁTVR 

21.07.2021 - 16:13
Arnar Sigurðsson selur áfengi gegnum vefverslun sem skráð er í Frakklandi.
 Mynd: RÚV
Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, hefur lagt fram kæru á hendur Ívari Arndal, forstjóra ÁTVR, fyrir rangar sakargiftir.

Mánudaginn 19. júlí sendi Arnar forstjóra ÁTVR bréf þar sem þess var krafist að kærur ÁTVR til lögreglu á hendur Sante yrðu tafarlaust dregnar til baka. Einnig var þess krafist að afsökunarbeiðni yrði birt með heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu ásamt vefborðum sem birtir væru í eina viku á vefsíðum mbl.is og Vísis.is. 

Fresturinn sem Ívar fékk til þessa rann út kl. 15:00 í dag án viðbragða af hans hálfu. Því hefur Arnar nú lagt fram áðurnefnda kæru. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Arnar sendi frá sér í dag. 

Í tilkynningunni kemur meðal annars fram að af málavöxtum mætti ljóst telja að með kæru Ívars til lögreglu og skattyfirvalda hafi hann “með rangri kæru leitast við að koma því til leiðar að undirritaður, saklaus maður, yrði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.” 

Í kjölfar þessa áskilji Arnar sér að rétt til að hafa uppi skaðabótakröfu vegna miska og fjártjóns á hendur sér á síðari stigum málsins. Krafa er gerð að Ívari sé refsað lögum samkvæmt.