Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Árlegar losunarúthlutanir Íslands samþykktar af ESA

21.07.2021 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: ESA
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt útfærslu að árlegum losunarúthlutunum fyrir EFTA-ríkin Ísland og Noreg fyrir tímabilið 2021 til 2030 í samræmi við reglugerð. Í tilkynningu frá ESA segir að tekið hafi verið mikilvægt skref í að tryggja að löndin nái settum markmiðum í takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030.

 

Reglugerðin tilgreinir bindandi skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland, Noreg og aðildarríki ESB til næstu níu ára. Reglugerðin nær til losunar utan viðskiptakerfisins „þ.m.t.  samgöngum, byggingaframkvæmdum, landbúnaði, öðrum iðnaði og úrgangsstjórnun.“

Löggjöfin hefur verið tekin upp í EES-samninginn og yfirfærir markmið um samdrátt í losun yfir í árlegar losunarúthlutanir fyrir árin 2021 til 2030. Í tilkynningunni segir að árlegu losunarúthlutanirnar séu ákvarðaðar með tilliti til tonna koltvísýringsígilda fyrir hvert ár eftir línulegum ferli milli áranna.

Þá segir að ESA hafi unnið náið með Íslandi, Noregi og framkvæmdastjórn ESB við undirbúning ákvörðunarinnar og útreikning á árlegu losunarúthlutunum.

 

Andri Magnús Eysteinsson