Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útilokar ekki að Ólympíuleikunum verði aflýst

epa09351468 Staff members walk next to the National Stadium in Tokyo, Japan, 18 July 2021. Just five days before the opening of the Tokyo Games, latest polls show that more than 85 per cent of the population are concerned about the Olympics as Tokyo recorded 1,000 new COVID-19 cases for the fifth straight day.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Útilokar ekki að Ólympíuleikunum verði aflýst

20.07.2021 - 13:21
Þegar einungis þrír dagar eru í setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó, sem upphaflega áttu að fara fram síðasta sumar, koma fréttir frá skipulagsnefnd leikanna um að ekki sé ennþá útilokað að leikunum verði aflýst. Mörg kórónuveirusmit hafa greinst í tengslum við leikana undanfarið.

Toshiro Muto, formaður skipulagsnefndar leikanna, sagði á blaðamannafundi í morgun að vegna mikillar fjölgunar smita í tengslum við leikana og í Tókýó sé óvíst hvort hægt sé að halda leikana. 

Skipulagsnefndin fylgist vel með þróun kórónuveirufaraldursins í borginni og í Ólympíuþorpinu. Í tékkneska strandhandboltalandsliðinu greindust þrjú tilfelli síðasta sólarhringinn og tveir leikmenn suðurafríska knattspyrnulandsliðsins fengu sömuleiðis jákvæð próf.

Leikarnir eiga, líkt og áður kom fram, að hefjast 23. júlí og standa til 9. ágúst. Flestir Tókýóbúar, og Japanar í heild, eru mótfallnir því að Ólympíuleikarnir fari fram og samkvæmt japönskum fjölmiðlum er talið að um 50-80 prósent þjóðarinnar kæri sig ekki um að leikarnir verði haldnir.

Forsætisráðherra Japans, Yoshihide Suga, segist í samtali við fjölmiðla vera viss um að allt fari vel og að Ólympíuleikarnir geti farið fram.

„Bólusetningin er hafin. Eftir löng og dimm göng erum við loksins farin að sjá ljósið,“ segir Suga í samtali við NTB-fréttaþjónustuna.