Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrír blaðamenn handteknir í Hvíta-Rússlandi í gær

20.07.2021 - 06:11
epa08643495 Belarus President Alexander Lukashenko speaks with Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (not seen) during their talks in Minsk, Belarus, 03 September 2020. Russian Prime Minister Mikhail Mishustin is on a visit to Minsk.  EPA-EFE/ALEXANDER ASTAFYEV / GOVERNMENTAL PRESS SERVICE / SPUTNIK POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik
Þrír blaðamenn hjá sjálfstæða fjölmiðlinum Regionalnaya Gazeta í Hvíta-Rússlandi voru handteknir í gær. Yfirvöld gerðu húsleit á skrifstofum fjölmiðilsins. Samkvæmt blaðamannasamtökum Hvíta-Rússlands hafa yfirvöld leitað á skrifstofum eða heimilum 64 fjölmiðla og fjölmiðlamanna síðustu tíu daga.

Alls eru 32 blaðamenn í haldi yfirvalda, sem hafa skorið upp herör gegn sjálfstæðum fjölmiðlum í landinu, að sögn Al Jazeera

Yfirvöld herja á fleiri hópa því í gær bárust þær fregnir að allir bankareikningar rithöfundasambandsins PEN Center hefðu verið frystir. Formaður sambandsins er Svetlana Alexievich sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015. Sjálf yfirgaf Alexievich landið í fyrra eftir að yfirvöld kölluðu hana til yfirheyrslu. Hún er í samhæfingarnefnd stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi. 

Stjórnvöld hafa gengið hart fram gegn sjálfstæðum fjölmiðlum, aðgerðasinnum og stjórnarandstæðingum síðan í forsetakosningunum í fyrra. Alexander Lúkasjenkó lýsti yfir sigri í kosningunum en stjórnarandstaðan og óháðar eftirlitsnefndir telja sigurinn ekki hafa verið heiðarlegan. Svetlana Tikanovskaya, helsti andstæðingur Lúkasjenkós í kosningunum, flýði land eftir kosningar. Eiginmaður hennar situr í fangelsi í Hvíta-Rússlandi.