Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórir: „Eyðum ekki einni hugsun í þetta“

epa08860856 Norway's Head coach Thorir Hergeirsson (C) during the EHF Euro 2020 European Women's Handball preliminary round match between Norway and Poland at Sydbank Arena in Kolding, Denmark, 03 December 2020.  EPA-EFE/BO AMSTRUP  DENMARK OUT
 Mynd: EPA

Þórir: „Eyðum ekki einni hugsun í þetta“

20.07.2021 - 16:04
Handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson er sem stendur á fullu í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana ásamt norska kvennalandsliðinu í handbolta. Í samtali við Verdens Gang segir Þórir að liðið geti ekki verið að eyða tíma sínum í að hugsa um eitthvað sem gæti orðið, og á þá við möguleikann á því að Ólympíuleikunum gæti verið aflýst.

 

Þegar einungis þrír dagar eru í setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó, sem upphaflega áttu að fara fram síðasta sumar, koma fréttir frá skipulagsnefnd leikanna að ekki er ennþá útilokað að leikunum gæti verið aflýst. Mörg kórónuveirusmit hafa greinst í tengslum við leikana undanfarið.

Toshiro Muto, formaður skipulagsnefndar leikanna talaði um það á blaðamannafundi í morgun að vegna mikillar fjölgunar smita í tengslum við leikana og í Tókýó að þá er ekki víst hvort Ólympíuleikarnir geti farið fram. 

Þórir var til viðtals við Verdens Gang í dag og segir þetta vera erfiðar aðstæður en sé vissulega ekki í þeirra höndum.
„Við eyðum ekki einni einustu hugsun í þetta mál, ef við fáum þau skilaboð að leikunum verði aflýst þá er það auðvitað leiðinlegt. Þetta er ekki í okkar höndum og við undirbúum okkur bara undir það að leikarnir fari fram,“ sagði Þórir í samtali við VG.

Þetta eru þriðju Ólympíuleikar Þóris með norska kvennalandsliðið í handbolta, í London árið 2012 vann liðið leikana en árið 2016 endaði það í 3. sæti. Takist Þóri að vinna til gullverðlauna verður það í áttunda sinn sem norska kvennalandsliðið hefur borið sigur úr býtum á stórmótum undir hans stjórn.