Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherrar sýna landsmönnum virðingarleysi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þingflokksformenn Samfylkingar og Pírata styðja hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum. Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir það virðingarleysi gagnvart landsmönnum að ráðherrar rífist innbyrðis í fjölmiðlum í stað þess að tryggja stuðning við aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Heilsa barna og viðkvæmra hópa í húfi

Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar segir að heilsa barna og viðkvæmra hópa sé undir í ljósi fjölgunar kórónuveirusmita í samfélaginu. Hún styðji því hertar aðgerðir á landamærum sem kynntar voru í gær. 

Ráðleggingar Þórólfs reynst best 

„Já ég tel að það sé nauðsynlegt að bregðast við. Það er augljóst að útbreiðslan meðal bólusettra er það mikil að bólusetningin kemur ekki í veg fyrir smit. Ef við grípum ekki til varna og faraldurinn fer úr böndunum þá getur aðgerðaleysi verið of dýru verði keypt.

Heilsa barna og viðkvæmra hópa er þarna undir. Ég tel að við verðum  að vera raunsæ og fara eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis. Það hefur reynst okkur best hingað til.“

Sérstakt að ráðherra gagnrýni verk eigin ríkisstjórnar 

Oddný segir ljóst að ágreiningur hafi verið lengi á milli stjórnarflokkanna um sóttvarnaaðgerðir. 

„En hins vegar er það mjög sérstakt þegar ráðherra í ríkisstjórn gagnrýnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hvort sem það er kosningaskjálfti eða hvað þá hefur ágreiningurinn innan þessarar ríkisstjórnar um sóttvarnir verið til staðar og í fleiri málum,“ segir Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar. 

Ein vægasta aðgerðin

Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata segir að afstaða flokksins hafi ætíð verið sú að herða frekar aðgerðir á landamærum en innanlands. „Og svona próf hljóta að teljast ein vægasta aðgerð sem hægt er að grípa til, allavega á meðan sérfræðingarnir okkar eru að fá betri mynd af stöðunni,“ segir Halldóra.

Virðingarleysi gagnvart landsmönnum

„Mér þykir verst hversu ófaglegt og ótraustvekjandi það er að ríkisstjórnin sé að rífast svona innbyrðis um aðgerðir í fjölmiðlum. Það er svo mikið virðingarleysi gagnvart landsmönnum, sem hafa fórnað ótrúlega miklu, að láta þetta spinnast út í pólitískt skítkast af því að það eru að koma kosningar.“ 

Deilurnar koma ekki á óvart

Er þetta kosningaskjálfti eða er þetta alvöru ágreiningur?

„Þessar deilur innan ríkisstjórnarinnar koma engum á óvart þannig séð. Þau hafa verið frekar ósamstíga í gegnum allan faraldurinn. Það er frekar sorglegt að stjórnarflokkarnir vilji frekar skora pólitísk stig í aðdraganda kosninga en að tryggja stuðning við  aðgerðirnar sem þau eru sjálf að innleiða,“ segir Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata.