Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýtt farsóttarhús opnað og grímuskylda á Landspítala

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Rauði krossinn hefur opnað nýtt farsóttarhús, Rauðará, fyrir fólk sýkt af COVID-19 þar sem farsóttarhótelið Lind var orðið svo til fullt. Þá hefur farsóttanefnd Landspítala Ísland þegar í stað hert grímuskyldu á öllum starfsstöðvum. Búist er við áframhaldandi aukningu í smitum á næstu dögum.

Í tilkynningu frá Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, er greint frá því að þar sem farsóttarhúsið Lind sé svo til fullt og búist við áframhaldandi aukningum í smitum hafi Rauði krossinn opnað nýtt farsóttarhús.

Í dag greindust 44 smit, 38 innanlands og 6 á landamærunum. Er þetta mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi á þessu ári. Eftir gærdaginn eru 163 manns í einangrun og 454 í sóttkví. Er fastlega búist við því að þessi tala hækki á næstu dögum. 

Á vef Landspítalans er greint frá því að í ljósi útbreidds smits í samfélaginu og margra stakra atburða sem tengjast Landspítala beint sjái farsóttanefnd sér ekki annað fært en að herða grímuskyldu strax. Tekur skyldan til allra starfsstöðva og skulu starfsmenn aðeins taka grímurnar niður til að matast.

Sama gildir um heimsóknargesti og aðra sem erindi eiga inn á spítalann. Inniliggjandi sjúklingar þurfa aftur á móti ekki að bera grímu nema þegar þeir fara af deild í rannsóknir eða meðferðir.

Í fyrrakvöld greindi fréttastofa RÚV svo frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu væri aftur byrjuð að ganga með andlitsgrímur við skyldustörf út af vaxandi fjölda Covid-smita.