Metfjöldi í gegnum Vaðlaheiðargöng

Mynd með færslu
 Mynd: Vaðlaheiðargöng
Umferð um landið hefur verið með mesta móti síðastliðnar vikur. Umferð um Vaðlaheiðargöng hefur aukist mikið og er það góða veðrinu á norðanverðu landinu að þakka.

 

Metumferð í gegnum göngin

Mun fleiri hafa ekið Vaðlaheiðargöng í ár en í fyrra. Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga segir að ferðamannastraumurinn um Norður- og Austurland undanfarið hafi orðið til þess að metumferð er um göngin. Yfir 3.000 ökutæki aka þar nú í gegn daglega.

Valgeir segir aukninguna gríðarlega. „Þetta er langmesta umferð sem hefur verið í göngin frá upphafi. Ég veit ekki hvort við erum búin að toppa en við erum komin með langmestu umferðina í göngunum og það eru tvær vikur í verslunarmannahelgi,“ segir Valgeir.
 

Ferðamenn á öllum vegum

Valgeir segir að umferð hafi ekki aðeins aukist um göngin heldur aki líka fleiri ferðamenn yfir Víkurskarð en áður, sem og gamla Vaðlaheiðarveginn. Það er einfaldlega allt fullt af ferðamönnum á Norðurlandi en erfitt að segja til um hvort það helst.

Valgeir segir að veðrið sé ástæða aukinnar umferðar og ef það helst njóti Vaðlaheiðargöng góðs af þar sem gjaldskylda er um göngin. „Það er í rauninni eingöngu þessu veðri að þakka enda hafa síðustu þrjár vikur verið ævintýralegar hjá okkur. Það er þvílík aukning hjá okkur miðað við í fyrra,“ segir Valgeir.
 

Fáir erlendir ferðamenn

Íslendingar eru í miklum meirihluta þeirra sem nota göngin og segir Valgeir að erlendir ferðamenn séu mun færri en 2019. Þeir hafi einfaldlega ekki skilað sér á Norðurland. Það eru því aðallega ferðaþyrstir Íslendingar sem bruna með tengivagna í gegnum göngin enda þarf ekki að greiða fyrir vagnana í Vaðlaheiðargöng.