Máttu hætta við pakkaferð á síðustu stundu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Ferðaskrifstofu Íslands í síðustu viku til greiðslu tæplega 900 þúsund króna vegna ferðar sem aldrei var farin. Samkvæmt dómnum var fjölskylda í fullum rétti að afbóka pakkaferð til Ítalíu nokkrum klukkustundum áður en hún átti að hefjast, þegar kórónuveirufaraldurinn byrjaði að magnast þar í landi í fyrravor.

Haustið 2019 bókaði stefnandi, ásamt foreldrum og tveimur systkinum og fjölskyldum þeirra, vikuferð til Madonna di Campiglio á Norður-Ítalíu. Ferðin var fyrirhuguð í lok febrúar og byrjun mars. Alls ætluðu 13 manns í ferðina sem kostaði 860 þúsund krónur og var hún  greidd að fullu. Daginn fyrir brottför var ferðin afpöntuð með þeim rökum að smitum hefði fjölgað hratt á Norður-Ítalíu. Í tölvupósti frá ferðaskrifstofunni nokkrum dögum síðar var svarað að samkvæmt skilmálum yrði ferðin ekki endurgreidd.

Deilendur tókust á um hvort endurgreiða bæri ferðina, ferðaskrifstofan sat við sinn keip  og benti á að það hefði ekki verið fyrr en 1. mars 2020 sem tilkynnt var að öll Ítalía væri skilgreind sem svæði með mikla smitáhættu, daginn eftir að fjölskyldan ætlaði utan. Fjölskyldan benti á að 25. febrúar hefði landlæknisembættið mælt gegn ónauðsynlegum ferðum til fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. Þremur dögum síðar, 28. febrúar,  greindi embættið frá því að íslenskur karlmaður hefði verið greindur með COVID-19. Hann greindist utan skilgreinds áhættusvæðis í bænum Andalo skammt frá Madonna di Campiglio. Embætti landlæknis skilgreindi alla Ítalíu sem áhættusvæði 29. febrúar, sama dag og ferðalag fjölskyldunnar átti að hefjast. 

Þá hafi stefnandi jafnframt fylgst vel með upplýsingum á vef almannavarna á Ítalíu. Þar hafi smitum fjölgað úr 229 þann 24. febrúar í 888 fjórum dögum síðar. Ferðaskrifstofan hafnaði kröfum fjölskyldunnar og benti á að ferðin hefði verið afpöntuð sjö og hálfri klukkustund fyrir brottför. 

Hulda Árnadóttir héraðsdómari dæmdi fjölskyldunni í vil og ber ferðaskrifstofunni að endurgreiða ferðina með dráttarvöxtum auk 500 þúsund króna í málskostnað.