Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Manndráp í miðborg Óslóar

20.07.2021 - 05:20
Mynd með færslu
 Mynd: Dag Aasdalen - NRK
Karlmaður á fimmtugsaldri lést af sárum sínum í gærkvöld eftir skotárás í miðborg Óslóar í Noregi. Lögreglan í Ósló greindi frá því á Twitter á sjöunda tímanum að staðartíma í gærkvöld að maður hefði verið skotinn á Tordenskioldsgötu.

Lögreglustjórinn, Grete Lien Metlid, staðfesti svo á blaðamannafundi klukkan hálfníu í gærkvöld að maðurinn væri látinn. Málið er rannsakað sem manndráp og er karlmaður á fimmtugsaldri í haldi lögreglu. 

Að sögn lögreglunnar þekkjast mennirnir og eru þeir báðir frá höfuðborginni. Mette Yvonne Larsen, talskona lögreglu, segir þann grunaða sjálfan hafa hringt eftir aðstoð. Hann er sagður góðkunningi lögreglunnar. Þetta mál virðist þó ekki tengjast öðrum málum sem lögreglan er með til rannsóknar að sögn Metlid.

Vitni segist í samtali við fréttastofu norska ríkisútvarpsins NRK hafa séð karlmann á fimmtugsaldri skóta á mann sem sat í bíl. Vitnið segist hafa orðið dauðskelkað. Vitnið fylgdist einnig með því þegar hinn grunaði var handtekinn og segir það hafa gengið vel fyrir sig. 

Nokkur fjöldi varð vitni að árásinni og biður lögregla fólk um aðstoð við rannsókn málsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV