Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögregla býst við verulegum árangri af auknum kröfum

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - RÚV
Lögregluyfirvöld á Keflavíkurflugvelli vonast til að hertar sóttvarnareglur á landamærum muni draga verulega úr smitum inn í landið. Verklagi verður breytt til að takast á við aukin verkefni.

Um helmingur farþega sem fer um Leifsstöð nýtir að jafnaði sjálfsinnritunarkassa sem nú nýtast ekki vegna aukinna krafna tengdum heimsfaraldrinum. Aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild segir verklagi verða breytt til að takast á við nýjar covid-reglur frá og með næsta mánudegi. Hann vonast til að þær skili miklum árangri.

Frá og með tuttugasta og sjötta júlí þurfa bólusettir farþegar eða þeir sem áður hafa fengið covid, að framvísa PCR-vottorði eða hraðprófi með neikvæðri niðurstöðu áður en farið er um borð í flug til landsins. Óbólusettir fara eftir sem áður í sýnatöku, framvísa PCR-vottorði og fara í sóttkví.

Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild segir að á tímum covid fylgi því auknar kröfur að ferðast. Sjálfvirkar vélar í brottfararsal anni venjulega um helmingi þeirra farþega sem séu að innritast í flug.

„Núna þurfa starfsmenn að hitta alla þessa farþega og kanna með vottorð og það eru mismunandi kröfur á milli landa svo þetta er tímafrekt.“ Lögreglan vonast til að aðgerðir eftir helgi dragi úr stórauknum fjölda smita. Allir sem komi í gegn um landamærin framvísi nú aftur vottorðum.

 „Á sínum tíma þegar vottorðin voru tekin upp þá var talsvert af smitum fyrir þann tíma frá flugvellinum en eftir að þau voru tekin í gagnið voru smit að fara frá 16 til 20 niður í 2 til 3 á dag þannig að við höfum ákveðnar væntingar um að við náum aðeins að hægja á þessum leka sem er á landamærum hjá þeim sem eru bólusettir.“

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV