Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líkfundur leiddi til morðrannsóknar í Svíþjóð

20.07.2021 - 02:05
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Sænska lögreglan hefur staðfest við þarlenda fjölmiðla að morðrannsókn sé hafin vegna líkfundar í vatni nærri Stokkhólmi í júní. Aftonbladet greinir fyrst frá. Líkið er af konu sem fannst nakin ofan í Magelungen-vatni, suður af Stokkhólmi, og benda áverkar á líkinu til þess að hún hafi verið beitt ofbeldi.

Vegfarandi, sem var að fara að synda í vatninu, fann líkið 22. júní. Samkvæmt lögreglu ætlaði konan að hitta mann 21. júní. Maðurinn er nú í haldi lögreglu vegna málsins en neitar sök. Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins, SVT, hefur eftir Evu Nilsson, lögreglufulltrúa í Stokkhólmi, að konan hafi verið einstæð móðir. Nilsson segir að hún hafi komið vel fyrir og ekkert hafi fundist sem geti skýrt hvers vegna hún var myrt.

Lögreglan óskar nú eftir upplýsingum frá almenningi sem gætu hjálpað til við rannsókn málsins. Allir sem sáu konuna 21. júní, eða fötin hennar og veskið, eru beðnir um að hafa samband. Hún er talin hafa látist á tímabilinu frá hálfátta mánudagskvöldið 21. júní til fjögur síðdegis 22. júní, að sögn Nilsson.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV